Erlent

Kim sagður vilja funda aftur með Trump

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Svo virðist sem einræðisherra Norður-Kóreu vilji funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta í desember. Þetta sagði starfsfólk leyniþjónustu Suður-Kóreu við þarlenda þingnefnd í dag.

Kim Jong-un hefur tvívegis fundað með Trump Bandaríkjaforseta. Fyrst í Singapúr á síðasta ári og svo í Víetnam í febrúar. Að auki hafa sendinefndir ríkjanna tveggja oftsinnis hist.

Umræðuefnið er kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Krafa Bandaríkjanna er í grunninn sú að ríkið eyði kjarnorkusvæðum sínum áður en slakað er á viðskiptaþvingunum en Kim-stjórnin hefur fyrst viljað afléttingu þvingana.

Nokkuð frost hefur verið í viðræðum ríkjanna frá því fundinum í Víetnam lauk án gerðar nokkurs samkomulags. Erindrekar mættu síðast til viðræðna í Svíþjóð í upphafi síðasta mánaðar. Árangur þeirra viðræðna var enginn.

Suðurkóreski miðillinn Yonhap greindi svo frá því í dag að leyniþjónusta Suður-Kóreu hafi tjáð þingnefnd að Kim vildi gjarnan eiga þriðja fundinn með Trump í næsta mánuði. Norður-Kórea hafi sett sér markmið um að viðræðum skuli vera lokið fyrir áramót og samningur í höfn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.