Innlent

Einn í haldi lögreglu vegna brunans á Akureyri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Neðsta hæð hússins er ónýt. Þá hafði eldurinn komist upp á aðra hæð í nótt.
Neðsta hæð hússins er ónýt. Þá hafði eldurinn komist upp á aðra hæð í nótt. Vísir/Tryggvi Páll
Einn er í haldi lögreglu á Akureyri vegna elds sem kom upp í íbúðarhúsi í bænum í nótt. Eldsupptök voru á neðstu hæð hússins en ekki fæst staðfest hvort grunur sé um íkveikju.

Slökkvilið var kallað út um klukkan hálftvö í nótt en þá hafði mikill eldur kviknað á neðstu hæðinni. Tvær manneskjur voru í íbúð á miðhæð hússins en komu sér út af sjálfsdáðum og tilkynntu eldinn. Jónas Baldur Hallsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Akureyri, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að neðsta hæðin væri ónýt. Þá hefði eldurinn komist inn í veggi og upp á aðra hæð þegar slökkvilið náði tökum á honum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Akureyri var einn handtekinn í nótt í tengslum við málið. Ekki fæst staðfest hvort hinn handtekni væri íbúi í húsinu, aðeins að hann tengdist málinu. Rannsókn stæði nú yfir og beðið væri eftir tæknideild lögreglu úr Reykjavík.

Þá hafi eldsupptök verið á neðstu hæð hússins en varðstjóri vildi ekki tjá sig um það hvort grunur væri um íkveikju. Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar í kjölfar brunans.

Húsið er þriggja hæða, heitir Byrgi og var reist um aldamótin 1900. Það stendur í Sandgerðisbót við smábátahöfnina á Akureyri. Samkvæmt frétt Mbl um málið í morgun er húsið í eigu Akureyrarbæjar og þar búa skjólstæðingar bæjarins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×