Innlent

Mikill eldur kviknaði í íbúðarhúsi á Akureyri

Gunnar Reynir Valþórsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Slökkviliðið var kallað út klukkan hálf tvö í nótt. Mynd er úr safni.
Slökkviliðið var kallað út klukkan hálf tvö í nótt. Mynd er úr safni. Vísir/Hanna
Eldur kom upp í íbúðarhúsi í Sandgerðisbót á Akureyri í nótt. Tvær manneskjur voru í íbúð á miðhæð þegar eldurinn kviknaði en komu sér út af sjálfsdáðum. Jarðhæð hússins, þar sem eldurinn virðist hafa komið upp, er ónýt, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á Akureyri. Mbl greindi fyrst frá.Slökkvilið var kallað út um klukkan hálftvö. Mikill eldur hafði kviknað á neðstu hæð hússins og var kominn inn í veggi þegar slökkvilið bar að garði. Slökkviliðsmenn voru þó fljótir að taka við sér og náðu tökum á eldinum þegar hann var komin upp í þriðju hæð hússins.„Við fáum útkall hálftvö í eld í Sandgerðisbót. Þar er ekki vitað hvort er fólk inni en þegar við komum á staðinn eru tvær manneskjur fyrir utan hús sem tilkynna eldinn. Þau urðu vör við eld á neðri hæðinni, það var kominn mikill reykur upp í íbúð hjá þeim,“ segir Jónas Baldur Hallsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Akureyri í samtali við fréttastofu.„Þetta var mikill eldur, kominn inn í veggi, þannig að við þurfum að fara upp á þriðju hæð til að komast fyrir eldinn og náum að stoppa hann þar og förum svo að vinna okkur niður eftir veggjunum til að komast niður á fyrstu hæð.“Ekki vitað um eldsupptök en lögregla hefur nú tekið við rannsókn málsins. Húsið heitir Byrgi og var reist um aldamótin 1900 í Sandgerðisbót við smábátahöfnina á Akureyri.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.