Erlent

Þrjú látin í kjarreldum í Ástralíu

Andri Eysteinsson skrifar
Um 1500 slökkviliðsmenn berjast við eldana.
Um 1500 slökkviliðsmenn berjast við eldana. EPA/Darren Pateman
Miklir eldar sem nú loga á þurrkasvæðum á austurströnd Ástralíu hafa kostað þrennt lífið. Þá hafa yfir 150 heimili brunnið til grunna og um og yfir 30 manns hafa slasast vegna kjarreldana.

Guardian greinir frá að um 1.500 slökkviliðsmenn úr brunavörnum ástralska héraðsins Nýju-Suður Wales, berjist nú við eldana en sterkur vindur hefur lagt eldinum lið undanfarna daga, segir Slökkviliðsstjórinn Shane Fitzsimmons.

69 ára gömul kona fannst látin í rústum heimilis síns í smábænum Wytaliba, þá fannst karlmaður látinn í bíl sínum í nágrenni bæjarins Glen Innes en þriðja líkið fannst í húsi í Johns Rivers. Ekki liggur ljóst fyrir hvort um sé að ræða húseigenda eða annan aðila.

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison varaði samlanda sína við því að fleiri slæmra frétta væri að vænta frá brunasvæðum. „Eldarnir sem hafa logað í Nýju-Suður Wales og í Queensland eru hrollvekjandi,“ sagði Morrison. Talið er að í heildina logi yfir 50 kjarreldar víðs vegar um austurströnd Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×