Fótbolti

„Án okkar væru dómararnir að skræla kartöflur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ancelotti fékk reisupassann í gær.
Ancelotti fékk reisupassann í gær. vísir/getty
Aurelio de Laurentiis, forseti Napoli, er yfirlýsingaglaður mjög og lét athyglisverð ummæli falla eftir 2-2 jafntefli sinna manna við Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Napoli-menn voru afar ósáttir við jöfnunarmark Atalanta sem Josip Ilisic skoraði á 86. mínútu.

Napoli vildi fá vítaspyrnu fyrir brot á Fernando Llorente en varð ekki að ósk sinni. Atalanta fór í skyndisókn og Ilisic jafnaði í 2-2.

Markið var skoðað í VARsjánni og eftir fimm mínútna bið var það loksins dæmt gott og gilt, Napoli-mönnum til lítillar gleði. Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Napoli, og aðstoðarmaður hans voru reknir út af fyrir mótmæli.

„Án okkar væru dómararnir að skræla kartöflur,“ sagði De Laurentiis eftir leik.

„Hvað er málið með þessi skrípalæti hjá dómaranum að refsa heiðursmanni eins og Ancelotti. Við erum búnir að fá nóg. Við erum þreyttir á að verða fyrir barðinu á svona slakri dómgæslu.“

Ancelotti lét einnig í sér heyra eftir leik og skammaði dómarann.

„Ég lít svo á að vegið hafi verið að fagmennsku minni, leikmönnum mínum og félaginu mínu,“ sagði Ancelotti.

Napoli er í 6. sæti ítölsku deildarinnar með 18 stig, átta stigum á eftir toppliði Juventus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×