Innlent

Þriðjungi færri stjórnarfrumvörp komin til þingsins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þriðjungi færri stjórnarfrumvörp hafa verið lögð fyrir á Alþingi í ár en á sama tíma í fyrra. Þá hafa ráðherrar aðeins mælt fyrir þriðjungi þeirra mála sem ættu að vera fram komin samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

Í þingmálaskrá eru settir fram mánuðir til viðmiðunar um hvenær ráðherrar hyggjast leggja mál sín fram á Alþingi. Alls eru sextíu frumvörp á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar áætluð í september og október á þessum þingvetri en aðeins 20 hafa verið lögð fyrir þingið. Meðal þeirra mála sem enn eru ekki fram komin eru frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla, frumvarp forsætisráðherra um vernd uppljóstrara, frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum og frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými svo fátt eitt sé nefnt.

Sjá einnig: Verið að „fínpússa“ fjölmiðlafrumvarpið

Það sem af er þessum þingvetri hefur fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram sjö frumvörp af tuttugu og tveimur sem í þingmálaskrá var miðað við að kæmu fram í september eða október. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur mælt fyrir fjórum frumvörpum af sjö samkvæmt þingmálaskrá, dómsmálaráðherra fyrir þremur af sjö og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir tveimur af fimm. Frá forsætisráðherra, utanríkisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra er komið eitt mál til þingsins frá hverjum ráðherra en engin mál frá umhverfis- og auðlindaráðherra, heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Þess má geta að frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými var kynnt í ríkisstjórn í vikunni.

Grafið sýnir þann fjölda stjórnarfrumvarpa hvers ráðherra sem þegar eru komin til þingsins samanborið við þann fjölda frumvarpa sem miðað var við að útbýtt yrði á Alþingi í september og október.Vísir/Hafsteinn
Það sem af er þessum þingvetri hafa alls 20 stjórnarfrumvörp komið til kasta Alþingis, en þau voru 31 á sama tíma í fyrra. Meðal þess sem kann að skýra hvað tefur það að mál rati til þingsins er álag innan ráðuneytanna og fjöldi verkefna þar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Í öðrum tilfellum kann að vera uppi pólitískur ágreiningur um einstök mál sem tefja kann framgang þeirra.

Engir þingfundir hafa farið fram í þessari viku en ætla má að strax í næstu viku taki fleiri mál að rata inn til þingsins. Tekið skal fram að tölurnar sem hér um ræðir ná aðeins yfir lagafrumvörp ráðherra en ekki þingsályktunartillögur eða þingmannamál. Þá er ekki er óvanalegt að þingmálaskrá standist ekki alltaf sett viðmið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×