Erlent

Missti meiri­hluta en heldur völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Justin Trudeau fagnar með eiginkonu sinni, Sophie Gregoire-Trudeau, í Montreal í gærkvöldi.
Justin Trudeau fagnar með eiginkonu sinni, Sophie Gregoire-Trudeau, í Montreal í gærkvöldi. AP
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, heldur völdum í landinu eftir þingkosningarnar sem fram fóru í gær, en með naumindum þó. Frjálslyndi flokkurinn, flokkur Trudeau, tryggði sér flest sæti á þinginu en hann mun þurfa að stjórna í minnihlutastjórn á sínu öðru kjörtímabili.

Flest bendir til að Frjálslyndi flokkurinn hafi fengið 156 þingsæti, en þá vantar fjórtán sæti upp á að ná hreinum meirihluta. Flokkurinn hlaut 184 þingsæti í kosningunum 2015. Aðalkeppinauturinn, Íhaldsflokkurinn, bætir töluvert við sig og fær 122 sæti en var með 95 á nýliðnu kjörtímabili.

Trudeau þarf því að reiða sig á stuðning frá öðrum flokkum og er helst talað um Nýja lýðræðisflokkinn (NDP) í því sambandi en leiðtogi hans, Jagmeet Singh, hefur slegið í gegn í kosningabaráttunni. Hlaut flokkur Singh 24 þingsæti á þinginu þar sem alls eiga 338 þingmenn sæti.

Flokkur aðskilnaðarsinna í Quebec virðist hafa tryggt sér 32 þingsæti, sem er mikil aukning frá síðustu kosningum þegar hann hlaut tíu.

Minnihlutastjórnir eru fremur algengar í Kanada en þrjár slíkar hafa starfað í landinu síðastliðin fimmtán ár. Kosningaþátttakan nú var í kringum 65 prósent.

Trudeau þakkaði Kanadamönnum fyrir að treysta sér og Frjálslynda flokknum fyrir að stýra landinu áfram. Sagðist hann ætla að vinna ötullega fyrir alla landsmenn, burtséð frá því hvernig þeir greiddu atkvæði í kosningunum.

Kosningabaráttan þótti sérstaklega hörð í þetta skiptið þar sem meðal annars var sótt harkalega að Trudeau. Var hann sakaður um að hafa hindrað framgang réttvísinnar, auk þess að mikið var rætt um gamlar ljósmyndir frá háskólaárum Trudeau þar sem mátti sjá hann dökkmálaðan í framan.

Mögulega til marks um harða kosningabaráttu vakti það athygli þegar Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsmanna, hóf ræðu sína eftir að ljóst var að Trudeau yrði áfram við völd. Í miðri ræðu Scheer hóf Trudeau sigurræðu sína frá kosningamiðstöðinni í Montreal sem fékk sjónvarpsstöðvarnar að beina athyglinni frá Scheer og til Trudeau. Scheer hafði þá áður hringt í Trudeau og óskað honum til hamingju með sigurinn.

Í sigurræðu sinni lagði Trudeau áherslu á glímuna við loftslagsbreytingarnar, að takast á við skotvopnafaraldurinn í landinu og að nauðsynlegt væri að „fjárfesta í Kanadamönnum“.


Tengdar fréttir

Mjótt á munum í Kanada

Þingkosningar standa nú yfir í Kanada. Mjótt er á munum og því útlit fyrir spennandi kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×