Fótbolti

Sterling áttundi Englendingurinn sem skorar þrennu í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sterling er kominn með fjögur mörk í Meistaradeildinni í vetur.
Sterling er kominn með fjögur mörk í Meistaradeildinni í vetur. vísir/getty

Raheem Sterling varð í gær áttundi Englendingurinn til að skora þrennu í Meistaradeild Evrópu.

Sterling skoraði þrjú marka Manchester City í 5-1 sigri á Atalanta á Etihad í gær. Englandsmeistararnir eru með fullt hús stiga á toppi C-riðils og komnir með annan fótinn í 16-liða úrslit keppninnar.

Með þrennunni komst Sterling í hóp sjö annarra landa sinna sem hafa skorað þrjú mörk í einum og sama leiknum í Meistaradeildinni.

Fyrsti Englendingurinn sem skoraði þrennu í Meistaradeildinni; Mike Newell. vísir/getty

Mike Newell afrekaði það fyrstur Englendinga. Hann skoraði þrjú mörk á níu mínútum þegar Blackburn Rovers vann Rosenborg, 4-1, í desember 1995.

Í 16 ár var Newell sá leikmaður sem hafði skorað þrennu á stystum tíma í Meistaradeildinni. Frakkinn Bafétimbi Gomis sló met Newells þegar hann skoraði þrjú mörk á sjö mínútum í 7-1 sigri Lyon á Dinamo Zagreb 2011.

Andy Cole skoraði tvær þrennur fyrir Manchester United í Meistaradeildinni; gegn Feyenoord 1997 og Anderlecht 2000.

Owen skoraði þrennu í 1-3 útisigri Manchester United á Wolfsburg 2009. vísir/getty

Michael Owen skoraði tvær þrennur í Meistaradeildinni með sjö ára millibili; fyrir Liverpool gegn Spartak Moskvu 2002 og Manchester United gegn Wolfsburg 2009. Owen er eini Englendingurinn sem hefur skorað þrennu fyrir fleiri en eitt félag í Meistaradeildinni.

Alan Shearer skoraði þrennu í 3-1 sigri Newcastle United á Bayer Leverkusen 2003. Ári síðar skoraði Wayne Rooney þrennu í sínum fyrsta Meistaradeildarleik; 6-2 sigri United á Fenerbache. Það er jafnframt eina þrenna hans í Meistaradeildinni.

Þá skoraði Danny Welbeck þrennu í 4-1 sigri Arsenal á Galatasary 2014 og Harry Kane í 3-0 sigri Tottenham á APOEL 2017.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.