Erlent

Sagðist vera að byggja múr í Colorado, sem er ekki á landamærunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Líklegast þykir að Trump hafi mismælt sig. Það vill hann þó ekki viðurkenna og sagði á Twitter nú í morgun að hann hafi eingöngu verið að grínast.
Líklegast þykir að Trump hafi mismælt sig. Það vill hann þó ekki viðurkenna og sagði á Twitter nú í morgun að hann hafi eingöngu verið að grínast. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt því fram á kosningafundi í gærkvöldi að hann væri að byggja múr í Nýju-Mexíkó og í Colorado. Það þykir athyglisvert fyrir þær sakir að Colorado er ekki á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og því er alfarið óljóst af hverju þörf sé á múr þar.

„Við erum að byggja múr á landamærum Nýju-Mexíkó og við erum að byggja múr í Colorado. Við erum að byggja fallegan múr. Stóran sem virkar. Sem þú getur ekki komist yfir, sem þú getur ekki komist undir,“ sagði forsetinn.

Eins og áður segir er Colorado ekki á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, þar sem Trump hefur lengi viljað byggja múr. Engar áætlanir hafa litið dagsins ljós um að byggja múr í Colorado, samkvæmt frétt USA Today.



Trump lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum í febrúar og með því gat hann notað fjármagn frá hernum til að byggja múr á hluta landamæranna.

Forsetinn nefndi þó að ekki stæði til að byggja múr í Kansas, sem er austur af Colorado, en íbúar þar myndu hagnast á „hinum múrunum“ sem hann hefði nefnt. Kansas er ekki heldur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Líklegast þykir að Trump hafi mismælt sig. Það vill hann þó ekki viðurkenna og sagði á Twitter nú í morgun að hann hafi eingöngu verið að grínast.

„(Í gríni) Við erum að byggja múr í Colorado“ (sagði svo, „við erum ekki að byggja múr í Kansas en þeir hagnast á múrnum sem við erum að byggja á landamærunum“)“ Trump sagði samt ekki „byggja á landamærunum“, heldur vísaði hann til hinna múranna sem hann hefði nefnt.

Þá sagði forsetinn að brandarinn hefði verið ætlaður fyrir íbúa Colorado og Kansas sem hefðu verið í salnum á kosningafundinum í gær.

Það er þó ekki ljóst til hvaða fundargesta Trump var að vísa, því fundurinn var í Pittsburgh í Pensylvaníu. Það er ansi langt frá Colorado og Kansas. Þá má sjá á myndbandi af ræðu Trump að hann gaf engin merki frá sér um að hann væri að grínast.

Trump hefur lengi átt í miklum vandræðum með að viðurkenna mistök. Það kemur reglulega fyrir að hann misles ræðutexta og hefur hann margsinnis reynt að bæta fyrir það með því að þykjast ekki hafa mislesið textann.

Skýrast væri að vísa til ræðu forsetans á allsherjarráði Sameinuðu þjóðanna í síðasta mánuði.

Á einum tímapunkti í ræðu sinni sagði Trump að Bandaríkjamenn „myndu aldrei skjóta, eða þreytast,“ á því að standa vörð um trúfrelsi. Þarna virðist nsem að forsetinn hafi lesið orðið „tire“ vitlaust og sagði hann „fire“. Iðulega þegar Trump misles ræðutexta bætir hann við „eða“ og les rétta orðið, í stað þess að leiðrétta sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×