Fótbolti

Sverrir í byrjunarliði PAOK annan leikinn í röð | Aron Elís lagði upp mark

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sverrir lék allan leikinn í sigri PAOK.
Sverrir lék allan leikinn í sigri PAOK. vísir/getty
Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði PAOK annan leikinn í röð þegar liðið vann Volos, 0-2, á útivelli í grísku úrvalsdeildinni í dag.

PAOK er á toppi deildarinnar með 20 stig, einu stigi á undan Olympiacos sem á leik til góða. PAOK varð grískur meistari á síðasta tímabili.

Sverrir fékk fá tækifæri með PAOK á síðasta tímabili og í byrjun þessa tímabils en nú virðist horfa til betri vegar hjá honum.

Aron Elís Þrándarson lagði upp mark í 2-1 sigri Aalesund á Start í Íslendingaslag í norsku B-deildinni. Aalesund er búið að vinna deildina en Start er í 3. sætinu.



Aron Elís var í byrjunarliði Aalesund líkt og Daníel Leó Grétarsson. Davíð Kristján Ólafsson sat allan tímann á varamannabekknum.

Aron Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Start. Jóhannes Harðarson er þjálfari liðsins.

Það var einnig Íslendingaslagur í norsku úrvalsdeildinni þegar Lillestrøm og Vålerenga gerðu markalaust jafntefli.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Vålerenga sem er í 9. sæti deildarinnar. Arnór Smárason lék síðustu 22 mínútur í liði Lillestrøm sem er í 11. sætinu.

Ragnar Sigurðsson lék ekki með Rostov sem vann 2-0 sigur á Sochi í rússnesku úrvalsdeildinni.

Björn Bergmann Sigurðarson sat allan tímann á bekknum hjá Rostov sem er í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×