Fótbolti

Yaya Toure: FIFA er alveg sama um rasisma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaya Toure spilar nú í Kína.
Yaya Toure spilar nú í Kína. Getty/Visual China
Yaya Toure, fyrrum leikmaður Barcelona og Manchester City, er allt annað en ánægður með stefnu Alþjóða knattspyrnusambandsins í baráttunni gegn kynþáttafordómum í fótboltanum. Hann var líka svekktur út í ensku landsliðsmennina.

Að mati Fílabeinsstrendingsins þá er FIFA ekki að gera nógu mikið og að hans mati þá átti enska landsliðið einnig að ganga af velli í Búlgaíu þegar ensku landsliðsmennirnir heyrðu apahljóðin úr stúkunni.

Hinn 36 ára gamli Yaya Toure spilar nú í Kína og lét þessi orð falla eftir að lið hans,  Qingdao Huanghai, tryggði sér sæti í kínversku súperdeildinni um helgina.

Leikur Búlgaríu og Englands í undankeppni EM 2020 var stöðvaður í tvígang í fyrri hálfleik vegna kynþáttaníðs úr stúkunni en ensku landsliðsmennirnir ákváðu að klára samt leikinn.





„Þetta er synd, Af hverju ertu að spila fyrir England?,“ spurði Yaya Toure sem vildi sjá róttækari viðbrögð frá ensku landsliðsmönnunum.

„Það er alltaf verið að tala um að gera eitthvað, bla, bla, bla en svo hvað? Ekkert breytist,“ sagði Yaya Toure. Hann er heldur ekki ánægður með FIFA.

„Fólkinu hjá FIFA er alveg sama um þetta hvort sem er því við erum enn að tala um þetta og þetta er ennþá í gangi. Ég hef áhyggjur af þessu,“ sagði Yaya Toure.

„Þeir verða að taka alvarlegra á þessu því annars mun rassistarnir bara halda áfram. Þeir verða að fara með leikmennina af velli,“ sagði Yaya Toure.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×