Enski boltinn

Aðeins sex leikmenn skapað fleiri færi en Gylfi í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi býr til færi fyrir samherja sína á rúmlega 30 mínútna fresti.
Gylfi býr til færi fyrir samherja sína á rúmlega 30 mínútna fresti. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er í 7. sæti á listanum yfir þá leikmenn sem hafa skapað flest færi í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Gylfi hefur búið til 22 færi fyrir samherja sína í Everton í vetur. Þeir hafa hins vegar ekki verið nógu duglegir að nýta færin og Gylfi er því aðeins með eina stoðsendingu.

Gylfi hefur leikið 683 mínútur á tímabilinu og skapar því færi á rúmlega hálftíma fresti.

Liðsfélagi Gylfa hjá Everton, Lucas Digne, er í 6. sæti færalistans. Franski vinstri bakvörðurinn hefur skapað 24 færi. Aðeins tvö þeirra hafa skilað mörkum.

Trent Alexander-Arnold, leikmaður Liverpool, hefur lagt upp flest færi allra í ensku úrvalsdeildinni í vetur, eða 37. Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, kemur næstur með 36 sköpuð færi.

De Bruyne er langstoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með níu slíkar. Samherjar Alexander-Arnolds hafa ekki nýtt færin jafn vel og samherjar De Bruynes því enski landsliðsmaðurinn er bara með tvær stoðsendingar á tímabilinu.

Argentínumaðurinn Emiliano Buendía, leikmaður nýliða Norwich, er þriðji á listanum yfir þá leikmenn sem hafa búið til flest færi í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann hefur skapað 26 færi fyrir samherja sína. Þar á eftir koma Pascal Groß (Brighton) og Jack Grealish (Aston Villa) með 25 sköpuð færi hvor.

Flest sköpuð færi í ensku úrvalsdeildinni:

1. Trent Alexander-Arnold (Liverpool): 37 færi sköpuð

2. Kevin De Bruyne (Man. City): 36 færi sköpuð

3. Emiliano Buendía (Norwich): 26 færi sköpuð

4. Pascal Groß (Brighton): 25 færi sköpuð

5. Jack Grealish (Aston Villa): 25 færi sköpuð

6. Lucas Digne (Everton): 24 færi sköpuð

7. Gylfi Þór Sigurðsson (Everton): 22 færi sköpuð

8. Riyad Mahrez (Man. City): 20 færi sköpuð

9. Raheem Sterling (Man. City): 19 færi sköpuð

10. Mason Mount (Chelsea): 19 færi sköpuð


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×