Fótbolti

Rúnar Már: Þetta verða nokkrar vikur hjá mér

Smári Jökull Jónsson á Laugardalsvelli skrifar
Rúnar í baráttunni við Kingsley Coman í leiknum í kvöld.
Rúnar í baráttunni við Kingsley Coman í leiknum í kvöld. Vísir/Vilhelm
„Okkur leið vel í hálfleik og fannst við vera með þá nokkurn veginn í skipulaginu varnarlega eins og við vildum. Sóknarlega hefðum við getað verið beittari, það vantaði stundum uppá síðustu sendinguna eða fyrirgjafirnar. Það er svekkjandi að tapa þessu,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson í samtali við Vísi eftir leikinn gegn Frökkum í kvöld.Sigurmark Frakka kom úr vítaspyrnu í síðari hálfleik og voru íslensku leikmennirnir ekki par sáttir með þann dóm.„Ég var þarna ofan í þessu. Ég veit ekki hvort Ari sparkaði í boltann á milli en það var einhver snerting allavega, svo tekur hann 2-3 skref og dettur niður. Þið verðið eiginlega að segja mér hvort þetta hafi verið víti eða ekki en mér fannst dómarinn heilt yfir sýna þeim allt of mikla virðingu.“„Öll 50/50 návígi duttu með þeim og mikið af ódýrum aukaspyrnum.“Rúnar Már fór meiddur af velli í kvöld og hélt um lærið. Ísland mætir Andorra á mánudag og verður Rúnar ekki með í þeim leik.„Þetta var tognun, ég verð ekki klár á mánudag. Þetta verða nokkrar vikur hjá mér,“ bætti hann við.Rúnar býst við allt öðruvísi leik gegn Andorra á mánudag.„Við verðum mikið með boltann og það væri fínt að skora snemma svo við verðum aðeins afslappaðri. Þeir unnu í kvöld og eru búnir að vera sterkir í síðustu leikjum þannig að þetta verður ekki auðvelt.“„Við þurfum að mæta eins og menn og klára þetta. Staðan í riðlinum er þannig að við þurfum að vinna okkar leiki. Við vonum að Frakkarnir klári sitt og við þurfum að gera okkar. Við erum með bakið upp við vegg og erum sjaldan betri en þegar allt er undir. Við þurfum að vinna rest og ég er bjartsýnn á að við gerum það. Við höfum farið til Tyrklands og spilað góða leiki en við þurfum að byrja að vinna á mánudaginn,“ sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir

Giroud: Hefðum getað skorað fleiri mörk í lokin

Oliver Giroud, leikmaður Chelsea, lék í framlínu franska liðsins í kvöld og háði harða baráttu við Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson í vörn íslenska liðsins. Hann sagði íslenska liðið hafa gert Frökkum erfitt fyrir í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.