Lífið

Pierce Brosnan þakkar fyrir hlýjar móttökur Húsvíkinga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pierce Brosnan var reffilegur á Húsavík á föstudaginn.
Pierce Brosnan var reffilegur á Húsavík á föstudaginn. Vísir
Pierce Brosnan virðist hafa verið ánægður með dvölina á Húsavík ef marka má nýja færslu á Instagram-reikningi hans. Írski stórleikarinn dvaldi um helgina á Húsavík ásamt stórstjörnunum Will Ferrell og Rachel McAdams.

Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga stóðu tökur á Eurovision-mynd Will Ferrell yfir á Húsavík um helgina. 200 manna tökulið setti bæinn á annan endann og var mikill spenningur á meðal bæjarbúa, enda ekki á hverjum degi sem Húsavík er sögusvið Hollywood-kvikmyndar.

Mikil leynd hvíldi yfir tökunum og var götum meðal annars lokað svo að tökulið gæti athafnað sig í friði. Brosnan hefur birt nokkrar myndir á Instagram á undanförnum dögum og virðist hann afar kátur með það að hafa verið við störf á Íslandi.

Í gærkvöldi birti hann stutt myndband tekið um borð í bát í höfninni á Húsavík, þar sem aðalbækistöðvar tökuliðsins voru staðsettar.

„Deginum lokið við tökur í fallegu Húsavík, Íslandi með Will Ferrell og Rachel McAdams. Stórkostlegt að fá að vera hluti af Eurovision-fjölskyldunni. Takk fyrir Húsavík fyrir hlýjar móttökur,“ skrifar Brosnan við myndbandið.

Brosnan ku leika fallegasta mann Íslands í myndinni en Ferrell og McAdams leika einnig Íslendinga í myndinni. Þá leikur fjöldi Íslendinga hlutverk í myndinni, bæði þekktir leikarar, sem og óþekktir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×