Innlent

Lögregla lítur hrekk í Þorlákshöfn mjög alvarlegum augum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má brotnaði úr framtönn drengsins og hann slasaðist illa á höku.
Eins og sjá má brotnaði úr framtönn drengsins og hann slasaðist illa á höku.
Lögreglan á Suðurlandi hefur til rannsóknar atvik í Þorlákshöfn þar sem drengur á tólfta aldursári slasaðist illa eftir að hann féll af reiðhjóli sínu.

„Grunur leikur á að dekkið hafi verið losað af mannavöldun og má öllum vera ljóst hversu alvarlegt slíkt er,“ segir í tilkynningu frá lögreglu til fjölmiðla.

Málið er í rannsókn og eru þeir sem hafa upplýsingar um málið hvattir til að hafa samband við lögreglu.

Hafnarfréttir í Þorlákshöfn greindu frá málinu fyrir helgi. Þá sagði Dóra Adamasdóttir, móðir drengsins, að hún hefði varið fjórum klukkustundum á sjúkrahúsi með syni sínum. Hann hefði fengið djúpan skurð á höku sem sauma þurfti saman. Þá hefði brotnað úr honum framtönn.

Hún sagðist telja að um hrekk væri að ræða. Fleiri dæmi hafa verið undanfarið um hrekki þar sem börn hafa slasast þegar dekk hafa dottið undan reiðhjólum.

Þórunn Lárusdóttir leikkona greindi frá því í september að sonur hennar hefði tvíhandarbrotnað eftir slíkan hrekk. Faðir í Garðabænum greindi sömuleiðis frá því að átt hefði verið við hjól sonar hans. Sá slasaðist sem betur fer ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×