Innlent

Víðáttumikil lægð færir okkur austanstorm

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi frá hádegi og til miðnættis.
Gular viðvaranir eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi frá hádegi og til miðnættis. Skjáskot/veðurstofa íslands

Víðáttumikil lægð er nú stödd langt suður í hafi og „færir okkur austanstorm með suðurströndinni, einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum,“ að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Vindurinn nær sér á strik í kringum hádegi en gular viðvaranir á Suður- og Suðausturlandi verða í gildi frá því um hádegisbil og til miðnættis.

„Annars staðar á landinu er útlit fyrir stífa austanátt þó að náist líklega ekki í stormstyrk nema á hálendinu. Með þessum stífa vindi er rigning um landið S- og A-vert og jafnvel talsverð um tíma SA-lands í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun dregur svo úr vindi víðast hvar. Líklega verður þó áfram stormur í Öræfum fram eftir degi og einhver væta um landið austanvert.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Austan 8-13 m/s, en 13-20 SA-lands. Þurrt að kalla á landinu, en rigning með köflum A-ast. Hiti 4 til 11 stig, mildast SV-til.

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s. Rigning SA- og A-lands, skýjað en úrkomulítið norðantil, en léttskýjað um landið V-vert. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.

Á föstudag:
Hægt minnkandi norðaustanátt. Skýjað og úrkomulítið fyrir austan, en bjart með köflum V-lands. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn, en víða líkur á næturfrosti.

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt og skýjað með A-ströndinni, annars bjart á köflum. Kólnar heldur.

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt og fer að rigna V-lands. Hiti 0 til 7 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir breytilega átt og úrkomusamt veður um allt land. Hlýnar allra syðst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.