Innlent

Börnin geta líka bjargað mannslífum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Um fjórðungur þeirra sem lendir í hjartastoppi utan heilbrigðisstofnana á Íslandi lifir af en það er mun betra hlutfall en gengur og gerist í öðrum löndum að sögn hjartalæknis. Í tilefni af alþjóðlega endurlífgunardeginum sem er í dag tóku nemendur í Víðistaðaskóla þátt í að ýta úr vör verkefni sem ber yfirskriftina Börnin bjarga.

Ísland stendur nokkuð vel að vígi hvað varðar þekkingu og kunnáttu til endurlífgunar en á seinustu fimm árum hafa 60 þúsund fullorðnir fengið kennslu í endurlífgun. „Af þeim hundrað sem fara í hjartastopp hér á Reykjavíkursvæðinu þá eru 25-30 sem lifa af. Annars staðar í heiminum eru þetta bara 10% eða lægri tölur,“ segir Hjörtur Oddsson, hjartalæknir og formaður Endurlífgunarráðs Íslands.

Með hjálp styrktaraðila voru nýverið fest kaup á nokkrum dúkkum sem notaðar verða í kennsluverkefni í endurlífgun sem heitir Börnin bjarga.

„Við erum að innleiða endurlífgunarfræðslu í skyldufræðsluefni skólahjúkrunarfræðinga heilt yfir landið í 6.-10. bekk alltaf árvisst, á hverju einasta ári erum við að kenna þeim endurlífgun,“ segir Ilmur Dögg Níelsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Víðisstaðaskóla.

9. bekkingar í Víðistaðaskóla hafa ekki látið sitt eftir liggja en Hrafnkell Árni Guðmundsson er einn þeirra. „Fyrst tékkar maður hvort að hann sé örugglega meðvitundarlaus, kíkir hvort hann sé að anda og kíkir hvort tungan sé föst í kokinu og svo hringir maður í 112 og svo byrjar maður bara að hnoða,“ segir Hrafnkell.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.