Erlent

Konan sem á að hafa horft á Friends í fjóra daga vill 1,4 milljarða frá De Niro

Birgir Olgeirsson skrifar
Robert De Niro.
Robert De Niro. Vísir/AP
Fyrrverandi starfsmaður Óskarsverðlaunahafans Robert De Niro hefur krafið leikarann um tólf milljónir dala í skaðabætur, sem samsvarar um 1,4 milljörðum íslenskrar króna. Sakar þessi fyrrverandi starfsmaður De Niro um kynjafordóma á vinnustað.

Starfsmaðurinn fyrrverandi er Graham Chase Robinson en De Niro hafði sjálfur höfðað sex milljóna dollara skaðabótamál gegn henni. De Niro sakaði Robinson um að hafa svikið fé úr fyrirtækinu Canal Production ásamt því að hafa horft látlaust á efni á streymisveitunni Netflix á vinnutíma.

Í stefnu De Niro kom fram að Robinson hefði varið fjórum dögum í að horfa á þáttaröðina Friends í stað þess að sinna vinnunni.

Robinson vill meina í stefnu sinni að De Niro haldi í gömul gildi þar sem konur eru ekki jafn réttháar og karlar. Robinson vill meina að De Niro gangist ekki við því að karlmenn eigi að koma fram við konur sem jafningja. Er því haldið fram að De Niro sé sama um kynjamisrétti á vinnustað og að Robinson sé fórnarlamb þess viðhorfs.

Robinson segir De Niro hafa notað niðrandi orð þegar hann ávarpaði hana og að hann hafi litið undan þegar hún var slegin á afturendann af samstarfsmanni.

Þá heldur Robinson því fram að De Niro hafi beðið hana um að klóra sér á bakinu, hneppa tölum hans, laga kraga og bindi og vekja hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×