Erlent

Staðfest að Bernie Sanders fékk hjartaáfall

Sanders hefur mælst með annað til þriðja mesta fylgi frambjóðenda í forvali demókrata.
Sanders hefur mælst með annað til þriðja mesta fylgi frambjóðenda í forvali demókrata. Vísir/EPA
Læknar Bernie Sanders, öldungadeildarþingmanns og frambjóðanda í forvali Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, segja að hjartaáfall hafi verið ástæða þess að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús í Las Vegas fyrr í vikunni.

Sanders, sem er 78 ára gamall, var útskrifaður af sjúkrahúsinu í dag. Hann var lagður inn á þriðjudag þegar hann kenndi sér meins fyrir brjósti á kosningaviðburði. Læknar fundu stíflu í slagæð og gekkst Sanders undir hjartaþræðingu vegna þess.

Upphaflega greindi framboð Sanders aðeins frá því að hann hefði fengið slagæðarstíflu. Hann ætlaði að hvíla sig heima í nokkra daga áður en hann hæfi kosningabaráttu sína aftur.

„Eftir tvo og hálfan dag á sjúkrahúsi líður mér frábærlega og eftir stutt hlé hlakka ég til að hefja störf aftur,“ er haft eftir Sanders í yfirlýsingu frá framboði hans, að sögn New York Times.

Sanders, sem er óháður öldungadeildarþingmaður frá Vermont, er á meðal þriggja frambjóðanda sem hafa mælst með mest fylgi í forvali demókrata undanfarna mánuði. Hann tapaði í forvali flokksins gegn Hillary Clinton árið 2016.

Næstu sjónvarpskappræður frambjóðenda í forvali demókrata fer fram 15. október. Talsmenn Sanders segja að hann taki þátt í þeim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×