Innlent

Segir Uber mögulega geta hafið starfsemi hér í vetur

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir farveituna Uber geta mögulega hafið starfsemi hér á Íslandi í vetur. Frumvarp sem hafi verið í smíðum um nokkuð skeið verði lagt fyrir þingið á næstu mánuðum. Þetta sagði ráðherrann í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Sigurður sagði að ef Uber uppfylli skilyrði frumvarpsins, og það verði að lögum, gæti fyrirtækið hafi starfsemi. Hann sagðist þó ekki hafa heyrt af áhuga fyrirtækisins að hefja rekstur hér á landi. Slíkt hefði ekki borist á borðið hans.

Í sumar bárust fregnir af því að samkvæmt frumvarpinu sem um ræðir standi til að afnema fjöldatakmarkanir á leyfum til leigubílaaksturs, þar sem slíkar takmarkanir eru ekki taldar samrýmast EES-samningnum.

Sjá einnig: Stígi varlega til jarðar varðandi Uber

Meðal athugasemda sem gerðar voru við frumvarpið var að verið væri að setja íþyngjandi skilyrði sem komi í veg fyrir að farveitur eins og Uber geti hafið starfsemi hér á landi.

Skilyrðin sem Sigurður nefndi vörðuðu „atvinnuleyfi, rekstrarleyfi, öryggi og svo framvegis“.

Ásgeir Þorsteinsson formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra og formaður Bifreiðarstjórafélagsins Frami, sagði í fyrra að engin þörf væri á Uber hér á landi. Hér væri samkeppni um berð og enginn skortur væri á leigubílum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.