Innlent

Ræktendurnir í Þykkvabæ fengu skilorðsbundna dóma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umfangsmikil kannabisræktun var starfrækt í útihúsi við bóndabæinn í Þykkvabæ. Myndin er úr safni.
Umfangsmikil kannabisræktun var starfrækt í útihúsi við bóndabæinn í Þykkvabæ. Myndin er úr safni. Lögreglan
Tveir karlmenn og ein kona fengu skilorðsbundna dóma í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir aðild að kannabisræktun við bóndabæ nærri Þykkvabæ.

Var þeim gefið að sök brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í útihúsi við bóndabæ nærri Þykkvabæ, þar sem tvö þeirra eiga heima, haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, samtals 206 kannabisplöntur, rúmlega 100 grömm af kannabisstönglum og rúmlega 800 grömm af maríhúana. Áttu þau að hafa um nokkurt skeið fram til dagsins 9. júní í sumar, þegar upp komst um athæfið, ræktað plönturnar.

Fólkið játaði brot sín fyrir dómi og var því ekki aðalmeðferð í málinu.

Karlmaður á sjötugsaldri og kona á sextugsaldri, sem búsett eru á bænum fengu tíu mánaða dóm annars vegar og átta mánaða dóm hins vegar. Báðir dómarnir eru skilorðsbundnir.

Tæplega fertugur karlmaður var auk þess sem getið var að framan ákærður fyrir brot gegn lögum um bann við frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Fundist á heimili hans í Seljahverfinu í Reykjavík 11 millilítrar af stungulyfinu nandrolon og sjö millilítrar af stungulyfingu testosteron.

Var hann dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Þrír menn, sem sæta ákæru fyrir umfangsmikla amfetamínsframleiðslu í Borgarfirði, eru sömuleiðis ákærðir fyrir aðild sína að ræktuninni í Þykkvabæ. Það mál hefur verið skilið að og verður tekið til meðferðar sérstaklega.

Í vikunni hafnaði Landsréttar kröfu verjenda mannanna um aðgang að upptökum og dagbókarfærslum lögreglu í málinu.

Dóminn í heild má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×