Fótbolti

Heimir í viðræðum um nýjan samning í Færeyjum en "einn af möguleikunum er að koma heim“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir Guðjónsson stýrði FH um margra ára skeið með frábærum árangri.
Heimir Guðjónsson stýrði FH um margra ára skeið með frábærum árangri. vísir/ernir

Heimir Guðjónsson, þjálfari HB í Færeyjum, er í viðræðum við liðið um nýjan samning en það gæti farið svo að hann þjálfi á Íslandi á næstu leiktíð.

Heimir var í viðtali við Guðmund Hilmarsson á Morgunblaðinu í morgun en þjálfarinn öflugi er á leið með lið sitt í bikarúrslit á morgun.

Á síðustu leiktíð tapaði HB í vítaspyrnukeppni eftir að hafa verið tveimur mönnum fleiri og marki yfir en þeir köstuðu frá sér sigrinum eins og Heimir segir sjálfur.

„Við vorum ótrúlegir klaufar í bikarúrslitaleiknum í fyrra og hentum titlinum frá okkur síðustu metrunum. Vonandi höf­um við lært af þeirri reynslu. Við er fara að mæta góðu og reynslumiklu liði þar sem margir leikmenn hafa unnið titla,“ sagði Heimir í viðtalinu.

Mótherji morgundagsins er Víkingur frá Götu en Heimir sló einmitt Víkinga út úr forkeppni Meistaradeildarinnar er hann stýrði FH.  

„Ég reikna með hörkuleik tveggja jafnra liða. Við höfum mætt Víkingi þrisvar sinnum á tímabilinu og höfum unnið tvisvar og tapað einu sinni. Allt voru það hörkuleikir.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Heimis. Margir hafa orðað hann við endurkomu í Pepsi Max-deildina en Heimir heldu öllu opnu.

„Ég er búinn að vera ræða við stjórn HB um að gera nýjan samning og svo sjáum við til hvernig það gengur. Tímabilið er ennþá í gangi en þegar samningi lýkur þá veltur þú því fyrir þér hvaða möguleikar eru í stöðunni.“

„Einn af möguleikunum er að koma heim en á móti kemur þá hefur okkur fjölskyldunni liðið ákaflega vel hér í Færeyjum. Hér er gott að vera og deildin er alltaf að verða betri,“ sagði Heimir að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.