Innlent

Upp­nám í Nes­kirkju: Stuðnings­maður Duterte hellti sér yfir syrgjandi móður

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Marissa Lazaro er ein þeirra sem misst hafa ættingja eftir ofbeldi af hálfu lögreglu.
Marissa Lazaro er ein þeirra sem misst hafa ættingja eftir ofbeldi af hálfu lögreglu. vísir
Uppnám varð í Neskirkju á ráðstefnu um mannréttindi á Filippseyjum þegar stuðningsfólk Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, gerðu hróp að móður sem lýsti morði lögreglunnar þar í landi á syni sínum.

Móðirin, Marissa Lazaro, sagði að sonurinn hafi ekki komið heim eitt kvöldið og þegar hún hafi farið að leita hans hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann hafði verið skotinn til bana. Hún sagði að dauði hans hafi umturnað lífi hennar.

„Er til of mikils ætlast að dauði sonar míns sé rannsakaður,“ spurði hún ráðstefnugesti.

Lazaro hélt á mynd af syninum þegar miðaldra filippseysk kona stóð upp og hellti sér yfir hana og sagði hana fara með ósannindi.

„Duterte forseti er að hjálpa þér,“ hrópaði hún að konunni sem hágrét undir reiðilestrinum.

Baráttufólk fyrir mannréttindum á Filippseyjum ákvað að halda ráðstefnuna á Íslandi í þakkarskyni fyrir tillögu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí um að rannsaka mannréttindabrot á Filippseyjum. Tillagan var samþykkt við litla hrifningu Dutertes.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands ávarpaði ráðstefnuna og varð vitni að uppnáminu í kringum hrópin að móðurinni.


Tengdar fréttir

Duterte blótar Íslendingum í sand og ösku og vonar að þjóðin frjósi í hel

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sparaði ekki stóru orðin um Ísland og Íslendinga í ræðu sem hann hélt í gær í Quezon-borg á Filippseyjum. Gagnrýndi hann stefnu Íslands hvað varðar þungunarrof harkalega. Kallaði hann Íslendinga drullusokka og fábjána, auk þess sem að hann sagðist vona að þjóðin frjósi í hel.

Fordæmi Íslands veitir vonarglætu

Það sem við urðum vitni að hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í þessum mánuði var í senn hvetjandi og gríðarlega mikilvægt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.