Innlent

Afkomendum Sævars boðnar 240 milljónir í bætur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti í fyrra.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti í fyrra. Vísir/vilhelm
Ríkislögmaður bauð afkomendum Sævars Ciesielski um 240 milljónir krónur í bætur í vor fyrir ranga sakfellingu í Geirfinnsmálinu. Þetta herma heimildir Ríkisútvarpsins. Þá hafi fimm sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum verið samtals boðnar um 760 milljónir í bætur.

Sakborningarnir fimm, áðurnefndur Sævar auk Kristjáns Viðars Júlíussonar, Tryggva Rúnars Leifssonar, Guðjóns Skarphéðinssonar og Alberts Klahn Skaftasonar, voru sýknaðir í málunum í Hæstarétti í fyrra.

Sjá einnig: Ríkis­lög­maður segir á­hrif sak­borninga í Guð­mundar- og Geir­finns­málum á fram­vindu máls hafa á­hrif á bætur

Guðjón hefur einn sakborninganna stefnt ríkinu fyrir ólöglega frelsissviptingu í 1.792 daga og harðræði í löngu gæsluvarðhaldi. Hann krefst bóta upp á 1,3 milljarða króna.

Í kvöldfréttum RÚV var greint frá því að ríkislögmaður hefði boðið afkomendum Sævars um 240 milljónir króna í bætur, eins og áður segir. Þá hafi Kristjáni Viðari verið boðnar um 200 milljónir, afkomendum Tryggva Rúnars um 160 milljónir, Guðjóni 140 milljónir og Alberti 20 milljónir.

Þá kemur jafnframt fram í frétt RÚV að tilboð af hálfu ríkisins í málinu hafi öll ýmist verið munnleg eða lögð fram á pappírum sem ekki mátti taka afrit af.

Ekki hefur áður verið greint frá því hversu háar bætur hafa verið boðnar sakborningunum fimm og afkomendum þeirra. Þó er ljóst að samkomulag hefur ekki náðst á milli þeirra og sérstakrar sáttanefndar sem skipuð var af forsætisráðherra.

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir helgi að bilið hefði verið of mikið til að semja. Upphæðirnar sem ríkið bauð hafi ekki verið í samræmi við dómafordæmi og þá fylgi ríkið ekki „reglum hins siðaða samfélags“ í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×