Innlent

Skipaður héraðsdómari eftir að hafa verið sniðgenginn ítrekað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jónas Jóhannsson var skipaður héraðsdómari í Reykjavík og á Vestfjörðum árin 1991-2011 en hefur síðan þá starfað sem lögmaður.
Jónas Jóhannsson var skipaður héraðsdómari í Reykjavík og á Vestfjörðum árin 1991-2011 en hefur síðan þá starfað sem lögmaður. Fréttablaðið/Anton Brink
Dómsmálaráðherra hefur skipað Jónas Jóhannsson í embætti héraðsdómara frá og með 13. nóvember næstkomandi. Dómnefnd um hæfni dómaraefna mat Jónas hæfastan til að hljóta embættið. Jónas mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjaness en sinna verkefnum fyrir alla dómstóla, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Jónas sótti um stöðu héraðsdómara árið 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, skipaði þá átta héraðsdómara í samræmi við tillögur dómnefndar sem lagði mat á hæfi umsækjenda. Guðlaugur Þór taldi vankanta á mati nefndarinnar en taldi sökum tímaskorts ekki annað í stöðunni en að fara að tillögum hennar.

Fyrrnefndur Jónas sótti um og hafði á ferilskránni tveggja áratuga reynslu sem héraðsdómari. Hann rataði hins vegar ekki á lista efstu átta af þeim 41 sem sóttu um. Á sínum tíma sagði Jónas að hann íhugaði málshöfðun vegna mats nefndarinnar.

Þá var það ekki í fyrsta skipti sem hæfisnefnd gekk fram hjá Jónasi en við skipun í Héraðsdóm Reykjavíkur ári fyrr var hann ekki talinn meðal átta hæfustu umsækjenda, þrátt fyrir að hafa mesta dómarareynslu hópsins.

Alls sóttu fjórtán um embætti héraðsdómara nú. Hæfnisnefndina skip­uðu Ing­i­­­mundur Ein­­­ar­s­­­son for­­­mað­­­ur, Kristín Bene­dikts­dótt­ir, Óskar Sig­­­urðs­­­son, Ragn­heiður Harð­­­ar­dóttir og Sig­ríður Þor­­­geir­s­dótt­­­ir.


Tengdar fréttir

Eiríkur verður dómari við Landsrétt

Forseti Íslands hefur fallist á tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra um að Eiríkur Jónsson, prófessor, verði skipaður dómari við Landsrétt frá og með 1. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×