Erlent

Landtökubyggðir Ísraela stækkuðu eftir að Trump varð forseti

Kjartan Kjartansson skrifar
SIlwan-hverfið í Austur-Jerúsalem þar sem möguleikar Palestínumanna til að byggja eru takmarkaðir.
SIlwan-hverfið í Austur-Jerúsalem þar sem möguleikar Palestínumanna til að byggja eru takmarkaðir. AP/Mahmoud Illean
Merkjanleg aukning varð í framkvæmdum við landtökubyggðir gyðinga í Austur-Jerúsalem eftir að Donald Trump varð Bandaríkjaforseti árið 2017. Samkvæmt úttekt AP-fréttastofunnar sýnir einnig áratugalanga mismunun á milli gyðinga og Palestínumanna þegar byggingarleyfi eru gefin út á svæðinu sem Ísraelar hafa hersetið frá 1967.

Opinber gögn sýna að þrátt fyrir að Palestínumenn séu um 60% íbúa í Austur-Jerúsalem hafi þeir aðeins fengið um 30% byggingarleyfa sem hafa verið gefin út frá árinu 1991. Þetta þýði að Palestínumenn hafist frekar við í yfirfullum hverfum með litla þjónustu. Um helmingur búi jafnframt við þá hættu að hús þeirra verði rifin.

Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels árið 2017 þrátt fyrir að Palestínumenn geri tilkall til austurhluta hennar sem höfuðborg sjálfstæðs ríkis sem þeir vilja stofna. Palestínumenn segja að sú ákvörðun Trump hafi gefið Ísraelum fríspil til að herða tök sín á hersetnu landi þeirra.

Þannig sýna gögnin að fyrstu tvö ár forsetatíðar Trump gáfu ísraelsk yfirvöld út leyfi fyrir 1.861 íbúðareiningu í landtökubyggðum í Austur-Jerúsalem og var það um 60% aukning frá árunum tveimur á undan. Leyfin sem voru gefin út árið 2017 voru nánast jafnmörg og árin tvö á undan samanlagt og höfðu fleiri leyfi ekki verið gefin út frá árinu 2000.

Um 215.000 gyðingar búa nú í hverfum í Austur-Jerúsalem sem hafa verið reist á undanförnum árum á meðan meirihluti þeirra 340.000 Palestínumanna sem þar búa í yfirfullum hverfum þar sem lítil byggingarpláss er til staðar.

Frá 1991 hafa borgaryfirvöld gefið út 21.834 leyfi til að reyna landtökubyggðir í Austur-Jerúsalem en aðeins 9.536 fyrir Palestínumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×