Innlent

Viktoría krón­prinsessa, for­sætis­ráð­herrar og fyrrum for­seta­fram­bjóðandi á mælenda­skrá Arctic Circ­le

Andri Eysteinsson skrifar
Um 2000 manns frá 50 til 60 löndum hafa sótt Arctic Circle undanfarin ár. Þingið fer árlega fram í Hörpu.
Um 2000 manns frá 50 til 60 löndum hafa sótt Arctic Circle undanfarin ár. Þingið fer árlega fram í Hörpu. Arctic Circle
Alþjóðaþing Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle fer fram á Íslandi dagana 10. til 13. október næstkomandi. Hringborð norðurslóða er orðinn fastur liður í ráðstefnulífi Reykjavíkurborgar. Þingið sækja um 2000 þátttakendur frá rúmlega 50 löndum. Meðal þeirra eru ráðherrar, vísindamenn, sérfræðingar, forystumenn í atvinnulífi, háttsettir embættismenn, leiðtogar frumbyggja og umhverfissamtaka.

Á meðal þeirra sem finna má á mælendaskrá ráðstefnunnar í ár eru stjórnarformaður Arctic Circle, Ólafur Ragnar Grímsson, forsætisráðherrar Íslands, Finnlands og Grænlands, Katrín Jakobsdóttir, Antti Rinne og Kim Kielsen.

Þá mun orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Rick Perry, sem áður var ríkisstjóri Texas halda tölu í Hörpu. Á meðal annarra Bandaríkjamanna sem halda tölu eru fyrrverandi utanríkisráðherrann John Kerry og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Jeffrey Ross Gunter.

Fyrrverandi umhverfisráðherra Frakklands, Segoléne Royal heldur tölu og það mun sjálf krónprinsessa Svíþjóðar, Viktoría einnig gera, fimmtudaginn 10. október næstkomandi í Silfurbergi í Hörpu.

Þá mun fjöldi íslenskra sem erlendra þingmanna taka þátt í ráðstefnunni. Athygli vekur að ákall Ólafs Ragnars til tortímandans, ríkisstjórans fyrrverandi, Arnolds Schwarzenegger virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði. En Arnold er hvergi að finna á mælendaskrá.

Sjá má drög að dagskrá alþjóðaþings Hringborðs norðurslóða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×