Erlent

Yfir tvö þúsund fóstur fundust á heimili látins læknis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Klopfer árið 2015.
Klopfer árið 2015. Vísir/ap
Meira en tvö þúsund varðveitt fóstur fundust á heimili bandarísks læknis í Illinois-ríki í Bandaríkjunum. Læknirinn lést í síðustu viku, en fóstureyðingar voru hans sérsvið.

Lögreglan í Will-sýslu í Illinois sagði í fréttatilkynningu sem kom út í gær að lögmaður aðstandenda mannsins, sem hét Dr. Ulrich Klopfer, hafi haft samband við skrifstofu dánarsdómstjóra sýslunnar vegna mögulegra líkamsleifa fóstra.

Nánari rannsókn leiddi í ljós 2246 varðveitt fóstur á heimilinu en ekkert bendir til þess að Klopfer hafi framkvæmt fóstureyðingar á heimili sínu. Málið er nú til rannsóknar hjá þar til bærum yfirvöldum.

Klopfer, sem lést 3. september, hafði um árabil starfað á fóstureyðingarstofu í South Bend í Indiana-ríki. Stofunni var lokað af ríkinu árið 2015 þar sem hún þótti ekki lengur uppfylla skilyrði ríkisins fyrir áframhaldandi starfsemi.

Klopfer var talinn einn afkastamesti læknir Indiana-ríkis með tilliti til fóstureyðinga, eða þungunarrofs. Staðarmiðillinn South Bend Tribune segir Klopfer raunar hafa framkvæmt þúsundir slíkra aðgerða yfir nokkurra áratuga tímabil.

Samtök sem starfa á grundvelli andstöðu við fóstureyðingarétt kvenna hafa nýtt mál Klopfers til þess að koma málstað sínum áfram í umræðunni. Til að mynda hefur AP-fréttaveitan eftir Mike Fitcher, forseta samtakanna Indiana Right to Life (Indiana -rétturinn til lífs), að málið undirstriki hversu gaumgæfilega þurfi að fylgjast með og gagnrýna „fóstureyðingaiðnaðinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×