Erlent

Gullklósetti stolið af fæðingarstað Churchill

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Klósettið var fullkomlega nothæft áður en því var stolið.
Klósettið var fullkomlega nothæft áður en því var stolið. Vísir/Ap
18 karata gullklósetti var stolið úr Blenheim-höllinni í Oxfordskíri í Bretlandi í gær. Framkvæmdastjóri hallarinnar segir að þjófnaðurinn veki upp spurningar um skilvirkni öryggiskerfi hallarinnar. Höllin er meðal annars fæðingarstaður Winstons Churchill, fyrrum forsætisráðherra Bretlands.

Dominic Hare, framkvæmdastjóri Blenheim-hallarinnar, segir að þjófagengi hafi á skömmum tíma tekist að brjótast inn í höllina og flytja klósettið, sem er metið á allt að 750 milljónum íslenskra króna, á brott.

Hare segir að þjófnaðurinn veki upp spurningar um hvort öryggiskerfi Blenheim-hallarinnar sé nógu skilvirkt og að farið verði ofan í kjölinn á því hvort eitthvað megi bæta í þeim efnum.

Skapari klósettsins, listamaðurinn Mauritzio Cattelan segir af og frá að um brellu til þess að vekja athygli á verki hans sé að ræða.

„Ég vildi óska þess að þetta væri hrekkur,“ hefur BBC eftir honum.

„Þegar ég vaknaði við þessar fréttir hélt ég að þetta væri grín. Hver er nógu heimskur til þess að stela klósetti? Ég gleymdi því í smá stund að það er gert úr gulli,“ sagði Cattelan.

Verkið, þ.e. klósettið, hlaut nafngiftina America og fór í sýningu í höllinni síðasta fimmtudag. Klósettið er hluti af stærri sýningu eftir Cattelan.

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við þjófnaðinn á klósettinu og er nú í haldi lögreglunnar á svæðinu. Samkvæmt lögreglu olli þjófnaðurinn umtalsverðu tjóni og flóði þar sem klósettið virkaði fullkomlega, áður en því var stolið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×