Enski boltinn

Mane og Salah skoruðu mörkin en galdrasendingar Firmino stálu senunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino fagnar markinu með Mohamed Salah.
Roberto Firmino fagnar markinu með Mohamed Salah. Getty/ Andrew Powell
Liverpool er enn með fullt hús eftir fimm fyrstu umferðir ensku úrvalsdeildarinnar þökk sé endurkomusigri á Newcastle United um helgina.

Liverpool lenti 1-0 undir í upphafi leiks en snéri leiknum við og vann sannfærandi 3-1 sigur.

Sadio Mane skoraði fyrstu tvö mörkin en það síðasta skoraði Mohamed Salah. Það var gaman fyrir stuðningsmenn Liverpool og sjá þá báða á skotskónum og fagna mörkunum saman eftir pirringin á milli þeirra fyrir landsleikjahlé.

Sadio Mane og Mohamed Salah hafa nú skorað jafnmörg mörk á þessu tímabili, fjögur hvor, og enn fremur eru þeir báðir með 26 mörk frá upphafi síðasta tímabils.

Mane og Salah skoruðu kannski mörkin í leik helgarinnar en það voru galdrasendingar Brasilíumannsins Roberto Firmino sem stálu senunni.

Firmino spilaði með brasilíska landsliðinu aðeins 72 klukkutímum fyrir leikinn og þurfti að auki að ferðast yfir Atlantshafið. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ákvað því að byrja með hann á bekknum.

Liverpool var reyndar búið að jafna leikinn þegar Roberto Firmino leysti meiddan Divock Origi af hólmi á 37. mínútu.

Aðeins nokkrum mínútum síðar stal Roberto Firmino boltanum og stakk honum inn á Sadio Mane sem kom Liverpool yfir.

Firmino stal síðan algjörlega senunni í seinni hálfleik þar sem hann fór á kostum í skemmtilegum sendingum á félaga sína.

Hann hafði getað endað daginn með fjórar eða fimm stoðsendingar en liðsfélagar hans fóru ekki nógu vel með færin. Firmino átti hins vegar galdrasendingu á Mohamed Salah í þriðja markinu.

Klopp viðurkenndi að það hafi ekki gengið upp að hafa Divock Origi úti vinstra megin og Sadio Mane inn á miðjunni.

„Bobby kom inn í sína bestu stöðu. Mo komst meira inn í leikinn, þeir spiluðu veggspil saman og við tókum stjórnina í leiknum eftir að við fórum að finna Bobby í fæturnar. Liðið skoraði stórglæsileg mörk eftir fallegan fótbolta,“ sagði Klopp.

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Newcastle, var heldur ekki í neinum vafa um hvað réði úrslitum í leiknum.

„Lykillinn fyrir þá var að fá Firmino inn. Hreyfingar hans og spilamennska breytti öllu. Þessir þrír fremstu eru eins góðir og menn verða. Þú skilur vel af hverju þeir eru Evrópumeistarar og töpuðu aðeins einu sinni á síðustu leiktíð,“ sagði Bruce.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.