Erlent

Hægri stjórn sest að völdum í Færeyjum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Formenn stjórnarflokkanna þriggja. Fyrir miðju situr lögmaðurinn Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, til vinstri er Jørgen Niclasen, formaður Fólkaflokksins, og til hægri er Jenis av Rana, formaður Miðflokksins.
Formenn stjórnarflokkanna þriggja. Fyrir miðju situr lögmaðurinn Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, til vinstri er Jørgen Niclasen, formaður Fólkaflokksins, og til hægri er Jenis av Rana, formaður Miðflokksins. Mynd/Kringvarp Færeyja.
Færeyingar hafa fengið nýja landsstjórn, hægri stjórn undir forystu Bárðar á Steig Nielsen, sem er nýr lögmaður Færeyja. Af sjö ráðherrum er aðeins ein kona. Myndir af nýju ráðherrunum voru sýndar í fréttum Stöðvar 2. 

Stjórnarskiptin í Færeyjum eru rökrétt afleiðing þingkosninganna fyrir hálfum mánuði þar sem fráfarandi vinstri stjórn missti meirihluta sinn og hafa flokkarnir þrír, sem áður sátu í stjórnarandstöðu, nú formlega tekið við völdum.

Bárður á Steig Nielsen er nýr lögmaður Færeyja. Fyrir framan hann situr Aksel V. Johannesen, fráfarandi lögmaður og formaður Javnaðarflokksins, og fyrir aftan Høgni Hoydal, fráfarandi sjávarútvegsráðherra og formaður Þjóðveldisflokksins.Mynd/Kringvarp Færeyja.
Formaður Sambandsflokksins, Bárður á Steig Nielsen, er nýr lögmaður Færeyja. Formaður Fólkaflokksins, Jørgens Niclasen, er varalögmaður og fjármálaráðherra, og formaður Miðflokksins, Jenis av Rana, utanríkis- og menntamálaráðherra. 

Á fundi Lögþingsins var Jógvan á Lakjuni frá Fólkaflokknum kjörinn nýr þingforseti, jafnframt því sem stjórnarsáttmálinn og ráðherrarnir voru kynntir. Fólkaflokkurinn og Sambandsflokkurinn fá þrjá ráðherra hvor en Miðflokkurinn einn ráðherra.

Elsebeth Mercedis Gunnleygsdóttir félagsmálaráðherra, til hægri, er eina konan í nýrri landsstjórn Færeyja.Mynd/Kringvarp Færeyja.
Jacob Vestergaard er nýr sjávarútvegsráðherra, Kaj Leo Holm Johannesen heilbrigðisráðherra, en hann var lögmaður Færeyja um sjö ára skeið, frá 2008 til 2015, Helgi Abrahamsen fer með atvinnu- og umhverfismálin en eina konan í nýju landsstjórninni er Elsebeth Mercedis Gunnleygsdóttir félagsmálaráðherra. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Samkomulag í höfn í Færeyjum

Náðst hefur samkomulag milli leiðtoga Fólkaflokksins, Miðflokksins og Sambandsflokksins í Færeyjum um myndun nýrrar landsstjórnar eftir nýafstaðnar kosningar.

Fær­eyingar ganga að kjör­kössunum í dag

37.819 eru á kjörskrá þegar þingkosningar fara fram í Færeyjum í dag. Níu flokkar eru í framboði til Lögþingsins þar sem barist er um 33 þingsæti.

Stjórnin féll í Færeyjum

Stjórnarflokkarnir í Færeyjum misstu meirihluta sinn í þingkosningunum sem fram fóru á laugardag.

Bakslag í viðræðurnar

Bakslag er komið í stjórnarmyndunarviðræður Fólkaflokksins, Sambandsflokksins og Miðflokksins í Færeyjum. Flokkarnir þrír felldu stjórnina í þingkosningum sem fram fóru 31. ágúst síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×