Fótbolti

Tapið í Albaníu þýðir lægsta sæti Íslands á FIFA-listanum í fimm ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland var síðast svona neðarlega á FIFA-listanum í ágúst 2014.
Ísland var síðast svona neðarlega á FIFA-listanum í ágúst 2014. Getty/ Jean Catuffe
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fellur niður um fimm sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins sem var gefinn út í morgun.

Íslenska liðið náði í þrjú stig af sex mögulegum í landsleikjunum í september, vann 3-0 sigur á Moldóvu á heimavelli en tapaði síðan 4-2 út í Albaníu.

Íslenska landsliðið var í 36. sæti á síðasta lista en er nú komið niður í 41. sæti. Ísland situr í næsta sæti á undan Rússum.

Þjóðirnar sem komust upp fyrir Ísland eru Tyrkland, Suður Kórea, Alsír, Marokkó og Paragvæ.

Lars Lagerbäck fer upp um þrjú sæti með norska landsliðið og er nú aðeins sex sætum á eftir íslenska landsliðinu.

Íslenska landsliðið hefur ekki verið neðar á listanum síðan í ágúst 2014 þegar liðið var í 46. sæti. Íslenska liðið hækkaði sig um tólf sæti á listanum í september 2014 og hafði ekki farið neðar en 40. sæti síðan.

Næstu leikir A-landslið karla eru gegn Frakklandi 11. október og Andorra 14. október. Uppselt er á leikinn gegn Frakklandi en miðasala á leikinn gegn Andorra er í fullum gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×