Erlent

Þrjátíu féllu í drónaárás Bandaríkjahers í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak eftir drónaárás Bandaríkjahers annars staðar í Afganistan fyrr á þessu ári.
Brak eftir drónaárás Bandaríkjahers annars staðar í Afganistan fyrr á þessu ári. Vísir/EPA
Drónaárás Bandaríkjahers í Nangarhar-héraði í Afganistan í gær felldi að minnsta kosti þrjátíu óbreytta borgara og særði fjörutíu til viðbótar. Fólkið var að hvílast eftir vinnudag að furuhnetuökrum. Árásin er sögð hafa átt að beinast að felustað hryðjuverkamanna Ríkis íslams.

Reuters-fréttastofan hefur eftir afgönskum embættismönnum að vinnufólkið hafi setið við varðeld þegar dróni réðst á það í gærkvöldi. Varnarmálaráðuneyti landsins og fulltrú Bandaríkjahers í Kabúl staðfesta árásina en ekki hvort óbreyttir borgarar hafi fallið í henni.

„Við vitum af ásökunum um dauða borgara og vinnum með embættismönnum á staðnum til að komast að því sanna,“ segir Sonny Legget, talsmaður Bandaríkjahers í Afganistan.

Talsmaður ríkisstjóra Nangarhar segir að í það minnsta níu lík hafi fundist á staðnum. Eigandi furuhnetuekrunnar segir að um 150 starfsmenn hafi verið við vinnu. Hann staðfestir að einhverjir þeirra séu látnir eða særðir og annarra sé saknað.

Tuttugu manns til viðbótar létu lífið í sjálfsmorðssprengjuárás talibana í Zabul-héraði í sunnanverðu Afganistan í dag. Bandaríkjastjórn sleit friðarviðræðum við talibana fyrr í þessum mánuði.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fjögur þúsund óbreyttir Afganar hafi verið drepnir eða særðir á fyrri helmingi ársins. Þeim sem stjórnarherinn og bandalagsher Bandaríkjamanna hafa drepið hafi snarfjölgað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×