Íslenski boltinn

Þjálfari bikarmeistaranna framlengir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð fagnar bikarmeistaratitlinum.
Alfreð fagnar bikarmeistaratitlinum. vísir/daníel

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari bikarmeistara Selfoss, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Undir stjórn Alfreðs varð Selfoss bikarmeistari í síðasta mánuði eftir 2-1 sigur á KR á Laugardalsvelli. Þetta var fyrsti stóri titilinn sem fótboltalið frá Selfossi vinnur.

Selfoss er öruggt með að enda í 3. sæti Pepsi Max-deildar kvenna. Liðið tekur á móti ÍBV í lokaumferðinni á laugardaginn.

Alfreð tók við Selfossi eftir að liðið féll úr Pepsi-deildinni 2016. Hann kom Selfyssingum upp úr Inkasso-deildinni í fyrstu tilraun og í fyrra endaði Selfoss í 6. sæti Pepsi-deildarinnar.

„Ég er ótrúlega ánægður með að geta haldið áfram hér á Selfossi og að menn séu tilbúnir að taka næsta skref. Ég er mjög ánægður með það umhverfi sem ég er að vinna í og við getum við mjög stolt af því sem við höfum verið að gera undanfarin þrjú ár. Það hefur verið mikil og góð uppbygging á liðinu og við erum komin á þann stað sem við viljum vera á. Ég get fullyrt að það eru fá félög á landinu sem hugsa eins vel um kvennaliðin sín. Hér er frábært starfsfólk og aðstaða og margir sem vinna að því af heilum hug að gera umgjörðina sem besta,“ segir Alfreð í fréttatilkynningu frá Selfossi.

Alfreð er einnig aðalþjálfari hjá Knattspyrnuakademíu Íslands í FSu.

„Akademían er frábær vettvangur fyrir unga leikmenn, bæði stráka og stelpur, til þess að bæta sig. Það hefur verið góð samvinna milli félagsins og akademíunnar og hér á Selfossi er allt til alls fyrir leikmenn sem vilja bæta sig meira sem fótboltamenn og ná enn betri árangri,“ segir Alfreð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.