Innlent

Segir Brexit hafa áhrif á fækkun erlendra ferðamanna til landsins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Erlendum ferðamönnum hefur fækkað um 13,5 prósent á milli ára. Ferðamálastjóri segir Brexit og breytingar á tengiflugi hjá íslenskum flugfélögum skýra fækkunina, sem er mest meðal þriggja þjóðerna, en ekkert bendir til minni áhuga á Íslandsferðum.

Ferðamálastofa birti í dag talningu á erlendum ferðamönnum til og frá Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt talningunni voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 252 þúsund í ágústmánuði eða um 39 þúsund færri en í ágústmánuði í fyrra.

Fækkunin er mest meðal þriggja þjóðerna. Það eru Bandaríkjamenn, Bretar og Kanadamenn.

„Önnur þjóðerni haldast nokkuð vel á milli ára og það mildar þau áhrif sem svona fækkun hefur,“ sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri.

Hann segir skýringar á bak við fækkun þessara þriggja þjóðerna.

„Það má gera ráð fyrir að Brexit hafi einhver áhrif á ferðalög Breta til annarra landa. Hvað varðar Bandaríkjamenn og Kanadamenn má gera ráð fyrir að breytingar hjá íslenskum flugfélögum hafi þar áhrif, að þetta tengist fækkun tengifarþega yfir Atlantshafið. Það er líka áhugavert að sjá að asískum ferðamönnum heldur áfram að fjölga og nú eru í fyrsta skipti fleiri Kínverjar að koma til landsins heldur en Bretar,“ sagði Skarphéðinn.

Hann segir fjölgun kínverskra ferðamanna til landsins í takt við þá þróun sem á sér stað í öðrum löndum, en ferðamönnum frá Kína er að fjölga stöðugt um allan heim.

„Nei það er engin ástæða til þess. Það eru skýringar á þessu og það eru engar vísbendingar um minni áhuga á Íslandsferðum þannig að við erum bjartsýn á framhaldið,“ sagði Skarphéðinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.