Fótbolti

Ari Freyr: Skil ekki af hverju það var ekki uppselt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Freyr fagnar með samherjum sínum eftir þriðja mark Íslands.
Ari Freyr fagnar með samherjum sínum eftir þriðja mark Íslands. vísir/daníel
Ari Freyr Skúlason átti afbragðs leik þegar Ísland lagði Moldóvu að velli, 3-0, í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli í dag. Bakvörðurinn átti þátt í öðru og þriðja marki Íslendinga.

„Þetta var fínt. Við fengum þrjú stig og héldum hreinu. Núna einbeitum við okkur bara að Albaníu,“ sagði Ari.

„Í aðdraganda leiksins einbeittum við okkur að okkur sjálfum og vildum gera eins og við gerðum í síðustu tveimur landsleikjum. Það tók okkur smá tíma að brjóta þá á bak aftur en annars gekk þetta vel.“

Ari hefði viljað sjá fleiri á Laugardalsvellinum í dag.

„Ég skil ekki af hverju það var ekki uppselt. Ég veit ekki hvað fólk vill meira en tólf stig af 15 mögulegum. Veðrið var ekki afsökun. Það var dúndurgott fótboltaveður í dag,“ sagði Ari.

„En annars var stemmningin á Laugardalsvelli frábær eins og alltaf. Við höldum bara áfram.“

Íslenska liðið heldur til Albaníu á morgun þar sem það mætir heimamönnum á þriðjudaginn. Sá leikur verður öllu erfiðari en leikurinn í dag.

„Ég býst við hörkuleik. Þetta er flott lið og harðir einstaklingar. Ef við gerum það gerum það sem við gerum venjulega eigum við möguleika á að fara með þrjú stig heim,“ sagði Ari að endingu.


Tengdar fréttir

Kári: Af hverju að breyta vinningsliði?

"Það ætlast allir til þess að við vinnum svona leiki en það er engu að síður erfitt að vinna 3-0, það eru frábær úrslit,“ sagði miðvörðurinn Kári Árnason eftir sigur Íslands gegn Moldóvum í dag.

Munaði litlu að Hamrén reyndist berdreyminn

Erik Hamrén, þjálfari karlaliðs Íslands, var afslappaður þegar hann settist niður með blaðamönnum að loknum 3-0 sigri á Moldóvu á Laugardalsvelli í dag.

Kolbeinn: Vildi gefa eitthvað til baka

Kolbeinn Sigþórsson þakkaði Erik Hamren traustið síðustu mánuði með því að skora fyrsta mark Íslands gegn Moldóvu í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×