Fótbolti

Hannes hefur haldið oftar hreinu í undankeppni EM 2020 en með Val í Pepsi Max

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. vísir/vilhelm
Hannes Þór Halldórsson hélt hreinu á móti Moldóvu í undankeppni EM um helgina og hefur þar með haldið marki sínu hreinu í tveimur af síðustu landsleikjum og alls í þremur af fimm leikjum íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2020.

Hannes hélt sæti sínu í byrjunarliðinu þrátt fyrir að hafa verið langt frá því að vera sannfærandi í leikjum Valsmanna í Pepsi Max deildinni. Í síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé skoraði Gary Martin tvisvar sinnum eftir skrautleg úthlaup Hannesar.

Þjálfararnir eins og öll þjóðin hefur mikla og langa reynslu af því að Hannes klikkar sjaldnast með íslenska landsliðinu og spilar vanalega mun betur með því en með félagsliðum sínum.

Hér blandast örugglega inn í sú staðreynd að hann er ekki með Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson fyrir framan sig nema í leikjum með íslenska landsliðinu. Hjá Val er hann samt einnig með öfluga miðverði en það hefur ekki dugað til.

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén valdi það líka að treysta áfram á Hannes sem hafði ekki mikið að gera á móti Moldóvu en hélt einbeitingunni allan leikinn og hélt marki sínu hreinu.

Með því að halda hreinu í Laugardalnum um helgina hefur Hannes haldið oftar marki sínu hreinu í fimm leikjum með Íslandi í undankeppni EM 2020 á þessu ári heldur en í fimmtán leikjum sínum með Val í Pepsi Max deildinni.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á tölfræði Hannasar í undankeppni EM 2020 og í Pepsi Max deild karla 2019.

Hannes Þór Halldórsson með Val í Pepsi Max deild karla:

Leikir spilaðir: 15

Mörk fengin á sig: 25

Mörk á sig í leik: 1,67

Leikir haldið hreinu: 2 (13%)

Instat - Varin skot í leik: 4,4

Instat - Hlutfall varða skota: 72,5% (66 af 91)

Lið sem hafa skorað 3 mörk eða meira á hann í leik: 4 (FH 2, Breiðablik, KR)

Hannes Þór Halldórsson með Íslandi í undankeppni EM 2020:

Leikir spilaðir: 5

Mörk fengin á sig: 5

Mörk á sig í leik: 1,00

Leikir haldið hreinu: 3 (60%)

Instat - Varin skot í leik: 1,8

Instat - Hlutfall varða skota: 64,3% (9 af 14)

Lið sem hafa skorað 3 mörk eða meira á hann í leik: 1 (Frakkland)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×