Fótbolti

Landsliðið þarf að vera á tánum til að skrifa söguna á morgun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á morgun mikilvægan leik í undankeppni EM 2020 þegar liðið mætir Albaníu á útivelli. Með sigri í þessum leik getur liðið skrifað nýtt blað í íslenskri fótboltasögu.

Vinni Ísland leikinn á morgun verður þetta fjórði sigur liðsins í röð í undankeppninni. Ísland hefur aldrei áður náð að vinna fjóra leiki í röð í undankeppni stórmóts.

„Við þurfum bara að nýta það hvernig sjálfstraustið er hjá okkur,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson við Óskar Ófeig Jónsson úti í Albaníu í dag.

„Við þurfum að halda áfram að vera á tánum því við vitum það að um leið og við förum á hælana þá erum við ekkert spes lið svo við þurfum að mæta þeim af fullum krafti.“

„Það er hugur í hópnum en við megum ekki vera of stórir og þurfum að halda okkur á jörðinni,“ sagði Aron Einar.

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, sagði markmiðið vera að sækja þrjú stig í leiknum en íslenska liðið þurfi þó að spila mjög vel og eiga góðan leik.

„Við berum mikla virðingu fyrir þeim en við ætlum að fara til þess að sækja þrjú stig á morgun,“ sagði Erik við Óskar Ófeig.

Ísland hefur nokkrum sinnum náð að sigra þrjá leiki í röð í undankeppnum stórmóts, en það kemur í ljós annað kvöld hvort fjögurra leikja múrinn verði loks brotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×