Glæsimark James dugði ekki til

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Daniel James kom til liðs við United í sumar og hefur farið frábærlega af stað með sínu nýja félagi
Daniel James kom til liðs við United í sumar og hefur farið frábærlega af stað með sínu nýja félagi vísir/getty
Manchester United og Southampton gerðu jafntefli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni á St. Mary's vellinum í Southampton í dag.

Daniel James kom gestunum frá Manchester yfir strax á 10. mínútu leiksins. Hann fékk nægan tíma og pláss á vinstri vængnum, keyrði inn í teiginn og lét vaða í markhornið. Glæsimark og James svo sannarlega búinn að stimpla sig inn í United-liðið.

Í seinni hálfleik jafnaði Jannik Vestergaard metin fyrir Southampton, en markið hafði legið nokkuð í loftinu þar sem heimamenn höfðu gert sig líklega til þess að jafna.

Southampton fékk sitt fyrsta horn í leiknum á 58. mínútu og þurfti David de Gea að verja fyrsta skot sitt í leiknum þegar Danny Ings skallaði í átt að marki. Varsla de Gea skilaði þó ekki miklu því Kevin Danso kom boltanum aftur inn í teiginn og Vestergaard stökk hærra en Victor Lindelöf í teignum og skallaði boltanum í netið.

Gestirnir sóttu hart að marki Southampton undir lokin. Mason Greenwood vildi fá vítaspyrnu þegar hann fór niður í teignum á 86. mínútu, hann átti svo mjög gott skot stuttu seinna og Jesse Lingard átti einnig tilraun til þess að næla í sigurmarkið.

Southampton hékk á stigi sínu og urðu lokatölur 1-1.

United er nú með fimm stig eftir fjóra leiki og hefur ekki unnið síðan í fyrstu umferðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira