Innlent

Akureyringar sleppa „loftmengandi flugeldasýningu“ sjöunda árið í röð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það voru krakkar af leikskólunum Tröllaborgum og Naustatjörn sem sungu afmælissönginn á meðan Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, dró fánann að húni.
Það voru krakkar af leikskólunum Tröllaborgum og Naustatjörn sem sungu afmælissönginn á meðan Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, dró fánann að húni. Ragnar Hólm

Fáni Akureyrarvöku var dreginn að húni í Listagilinu á Akureyri klukkan tíu í morgun en bæjarhátíðin Akureyrarvaka verður formlega sett klukkan átta í kvöld í Lystigarðinum. Hátíðin er haldin veglega í átjánda skiptið í ár.

Í Lystigarðinum verður haldin svokölluð Rökkurró með alls kyns uppákomum um allan garð fram eftir kvöldi. Af öðrum viðburðum kvöldsins má nefna Fjölskyldufjör í Íþróttahöllinni þar sem Húlladúllan bregður á leik með gestum og gangandi.

Klukkan 22.30 halda Högni Egilsson og Sinfonia Nord Kvartett stutta stofutónleika í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi.

Dagskrá laugardagsins er þéttskipuð frá klukkan tíu að morgni og fram yfir miðnætti. Á stórtónleikum í Listagilinu annað kvöld koma fram Bríet, Eik Haralds, Eyþór Ingi, Friðrik Dór og Helgi Björns. Hljómsveitin Vaðlaheiðin sér um undirleik.

„Meðan á tónleikunum stendur verða nærliggjandi byggingar skreyttar með litríkum vídeóverkum og kveikt verður á kertaflóði í kirkjutröppunum á Friðarvöku bæjarbúa sem hefur síðustu sjö árin leyst loftmengandi flugeldasýningu af hólmi,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Til umræðu hefur verið að hætta með flugeldasýningu á Menningarnótt í Reykjavík. Engin áform eru um það að sögn borgarstjóra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.