Innlent

Norðmenn verði augu og eyru NATO í norðri, ekki Bandaríkin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í gær.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í gær. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir að Norðmenn fyrst og fremst, en hvorki Bandaríkjamenn né Bretar, eigi að vera augu og eyru Atlantshafsbandalagsins í norðri. Þetta kom fram í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Við rifjuðum upp með Ernu Solberg í Viðey í gær þau sameiginlegu tengsl sem Noregur og Ísland ættu við Grænland allt frá tímum Eiríks rauða og, - áður en fréttist af ákvörðun Trumps í nótt um að aflýsa Danmerkurheimsókn, - spurðum við hvað forsætisráðherra Noregs þætti um áhuga Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland.

Erna Solberg í viðtali við Stöð 2 að loknum fundi leiðtoga Norðurlandanna með kanslara Þýskalands í Viðey. Mynd/Egill Aðalsteinsson.

„Það verður að virða það að Grænland hefur sjálfsákvörðunarrétt og það er Danmörk sem hefur lögsögu í landinu. Það er ekkert land sem gefur frá sér yfirráð með þessum hætti. Það hefðum við ekki gert, ef við værum í þessari stöðu,“ svarar Erna og minnir á að í Kílarsamningnum 1814 eftir Napóleonsstríðið lentu bæði Færeyjar og Grænland undir yfirráðum Danmerkur í stað þess að fylgja Noregi, sem var móðurlandið. 

En er í raun ekki alvarlegri undirtónn í ósk Bandaríkjaforseta sem felur í sér meiri spennu á norðurslóðum?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, staðfesti áhuga sinn á að kaupa Grænland í viðtali í fyrradag. Mynd/AP.

Erna Solberg segir Norðmenn leggja höfuðáherslu á að halda spennu í lágmarki á þessu svæði. Samráðsvettvangur norðurslóða eigi að vera í Norðurskautsráðinu á borgaralegum grunni fyrst og fremst, þar eigi að leita lausna í góðri samvinnu. 

„Rússar hafa aukið starfsemi sína á svæðinu á milli Noregs og Íslands en ég er þeirrar skoðunar að það sé Noregur sem eigi að vera augu og eyru NATO í norðri. En ekki Bandaríkjamenn eða Bretar eða aðrar þjóðir, heldur fyrst og fremst Noregur,“ segir forsætisráðherra Noregs. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.