Innlent

Norðmenn verði augu og eyru NATO í norðri, ekki Bandaríkin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í gær.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í gær. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir að Norðmenn fyrst og fremst, en hvorki Bandaríkjamenn né Bretar, eigi að vera augu og eyru Atlantshafsbandalagsins í norðri. Þetta kom fram í viðtali í fréttum Stöðvar 2.Við rifjuðum upp með Ernu Solberg í Viðey í gær þau sameiginlegu tengsl sem Noregur og Ísland ættu við Grænland allt frá tímum Eiríks rauða og, - áður en fréttist af ákvörðun Trumps í nótt um að aflýsa Danmerkurheimsókn, - spurðum við hvað forsætisráðherra Noregs þætti um áhuga Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland.

Erna Solberg í viðtali við Stöð 2 að loknum fundi leiðtoga Norðurlandanna með kanslara Þýskalands í Viðey.Mynd/Egill Aðalsteinsson.
„Það verður að virða það að Grænland hefur sjálfsákvörðunarrétt og það er Danmörk sem hefur lögsögu í landinu. Það er ekkert land sem gefur frá sér yfirráð með þessum hætti. Það hefðum við ekki gert, ef við værum í þessari stöðu,“ svarar Erna og minnir á að í Kílarsamningnum 1814 eftir Napóleonsstríðið lentu bæði Færeyjar og Grænland undir yfirráðum Danmerkur í stað þess að fylgja Noregi, sem var móðurlandið. En er í raun ekki alvarlegri undirtónn í ósk Bandaríkjaforseta sem felur í sér meiri spennu á norðurslóðum?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, staðfesti áhuga sinn á að kaupa Grænland í viðtali í fyrradag.Mynd/AP.
Erna Solberg segir Norðmenn leggja höfuðáherslu á að halda spennu í lágmarki á þessu svæði. Samráðsvettvangur norðurslóða eigi að vera í Norðurskautsráðinu á borgaralegum grunni fyrst og fremst, þar eigi að leita lausna í góðri samvinnu. „Rússar hafa aukið starfsemi sína á svæðinu á milli Noregs og Íslands en ég er þeirrar skoðunar að það sé Noregur sem eigi að vera augu og eyru NATO í norðri. En ekki Bandaríkjamenn eða Bretar eða aðrar þjóðir, heldur fyrst og fremst Noregur,“ segir forsætisráðherra Noregs. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.