Innlent

Lögmaður Kristjáns Viðars fagnar stefnubreytingu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Hæstiréttur sýknaði sakborninga 27. september í fyrra.
Hæstiréttur sýknaði sakborninga 27. september í fyrra. Fréttablaðið/Eyþór
„Ég er auðvitað ánægður með stefnubreytinguna sem virðist vera orðin frá yfirlýsingu sáttanefndarinnar í byrjun júlí,“ segir Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars Viðarssonar, sem var sýknaður í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hún hefði ákveðið að taka upp þráðinn í málum sem varða skaðabætur til þeirra sem sýknaðir voru. Sérstök sáttanefnd sem skipuð var í málinu sagði 1. júlí síðastliðinn að grund- völlur sátta um bætur hefði brostið.

Arnar Þór segir sáttanefndina hafa slegið þann tón að úr því að Guðjón Skarphéðinsson, einn hinna sýknuðu, hefði ákveðið að höfða dómsmál væri allt málið tekið úr sáttaferli.

„Það getur aldrei verið þannig að þó að einn fari í dómsmál megi ekki semja við hina. Ég fagna því ef ráðherrann er að bakka út úr því og segja að það sé fyrir hendi sáttavilji hvað hina varðar,“ segir Arnar Þór.

Í yfirlýsingu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér í gær segir að ríkislögmaður undirbúi nú greinargerð í máli sem höfðað hefur verið fyrir hönd Guðjóns Skarphéðinssonar. Mál annarra sem tengist málinu séu einnig til skoðunar.

Arnar Þór staðfestir að bótakrafa hafi verið lögð fram fyrir hönd Kristjáns Viðars í byrjun þessa mánaðar. Fjárhæðin sem farið sé fram á sé að öllum líkindum sú hæsta í Íslandssögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×