Fótbolti

Jón Guðni og félagar tylltu sér á toppinn | Ekkert gengur hjá Dijon

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Guðni hefur leikið allan tímann í síðustu þremur leikjum Krasnodar.
Jón Guðni hefur leikið allan tímann í síðustu þremur leikjum Krasnodar. vísir/getty
Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn fyrir Krasnodar sem gerði jafntefli við Lokomotiv Moskvu, 1-1, í rússnesku úrvalsdeildinni.

Krasnodar er á toppi deildarinnar með 14 stig, jafn mörg og Lokomotiv en er með betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna.

Jón Guðni hefur leikið 90 mínútur í síðustu þremur leikjum Krasnodar.

Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Dijon sem tapaði fyrir Bordeaux, 0-2, í frönsku úrvalsdeildinni.

Dijon hefur tapað öllum þremur deildarleikjum sínum það sem af er tímabili og aðeins skorað eitt mark.

Rúnar Alex hefur leikið alla þrjá leiki Dijon á tímabilinu. Í fyrra lék hann 26 deildarleiki fyrir Dijon.

Hólmar Örn Eyjólfsson kom inn á undir lok leiks Levski Sofia og Lok. Plovdiv. Levski Sofia vann, 1-0, og komst þar með á topp deildarinnar.

Hólmar hefur komið við sögu í síðustu tveimur leikjum Levski Sofia. Hann er óðum að nálgast fyrri styrk eftir að hafa verið frá vegna meiðsla síðan í nóvember 2018.

Þá lék Aron Bjarnason síðustu níu mínúturnar þegar Újpest tapaði fyrir Kisvarda, 1-0, í ungversku úrvalsdeildinni. Újpest er í 6. sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×