Erlent

Lýst yfir neyðarástandi vegna fellibyljarins Dorian sem stefnir á Flórída

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ríkisstjóri Flórída hefur lýst yfir neyðarástandi vegna Dorian.
Ríkisstjóri Flórída hefur lýst yfir neyðarástandi vegna Dorian.
Hitabeltisstormurinn Dorian, sem óttast var að myndi valda miklu tjóni á Púertó Ríkó í kvöld hefur sótt í sig veðrið og náð styrk fellibyljar. Ætla má að hann verði að þriðja stigs fellibyl áður en langt um líður.

Í fyrstu var talið að hann Dorian myndi valda mikilli eyðileggingu í norðausturhluta Karíbahafs en eyjaskeggjar í Púertó Ríkó sluppu að mestu leyti og er hættan liðin hjá. 

Fellibylurinn olli þó miklum usla á bandarísku jómfrúareyjum en algert rafmagnsleysi var á St. Thomas og St. John í kvöld auk þess sem skemmdir urðu á byggingum.

Dorian mjakast frá Karíbahafinu og stefnir norðvestur.Vísir/EPA
Sérfræðingar hjá fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna greina nú frá því að fellibylurinn mjakist nú frá Karíbahafinu og hafi tekið stefnuna norðvestur. Óttast er að á leiðinni sæki Dorian í sig veðrið og valdi mikilli eyðileggingu á Flórída um helgina.

Don DeSantis, ríkisstjóri í Flórída, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna Dorian og íbúar hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir.

Hann sagði að íbúarnir ættu að verða sér úti um mat, vatn og lyf sem þyrftu að duga fyrir minnst sjö daga. Allir ættu að undirbúa heimili sín eins og frekast væri unnt og fylgjast vel með fréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×