Erlent

Giammattei kjörinn forseti Gvatemala

Andri Eysteinsson skrifar
Alejandro Giammattei, nýkjörinn forseti Gvatemala.
Alejandro Giammattei, nýkjörinn forseti Gvatemala. Getty/Josue Decavele
Íhaldsmaðurinn Alejandro Giammattei hefur verið kjörinn forseti Mið-Ameríkuríkisins Gvatemala. BBC greinir frá því að Giammattei sem bauð sig fram til forseta í fjórða skipti hafi hlotið 59% greiddra atkvæða í annarri umferð kosninganna. Mótframbjóðandi hans, Sandra Torres hlaut 41% atkvæða.

„Þetta var ekki auðvelt en við náðum markmiðinu. Það verður ótrúlegur heiður að fá að gegna embætti forseta landsins sem ég ann svo heitt,“ sagði Giammattei eftir að honum höfðu verið tilkynnt úrslitin.

Giammattei hefur, eins og áður segir, boðið sig fram til forseta í fjögur skipti. Í þetta skipti bauð hann sig fram fyrir hönd Vamos flokksins en hann hefur boðið sig fram fyrir nýjan flokk í hverjum einustu kosningum.

Giammattei er læknismenntaður og var árið 2006 skipaður fangelsismálastjóri Gvatemala. Sama ár stýrði hann umdeildu verkefni sem sneri að því að ná aftur stjórn á Pavón fangelsinu sem hafði verið tekið yfir af föngum. Sjö fangar létust í aðgerðinni og var Giammattei ásamt sjö öðrum fangelsaður vegna aðgerðarinnar. Honum var að endingu sleppt úr haldi vegna skorts á sönnunargögnum.

Helsta málið fyrir kosningar var hvernig frambjóðendurnir mundi takast á við háa glæpatíðni innan ríkisins. Giammattei hafði þá lofað að hann myndi styðja frumvarp sem flokkaði meðlimi gengja sem hryðjuverkamenn. Með frumvarpinu yrði þeim gert að vinna í fangelsi auk þess sem að þeir hefðu ekki rétt á heimsóknum maka.

Giammatei mun taka við embættinu af Jimmy Morales í janúar næstkomandi. Samkvæmt stjórnskipunarlögum Gvatemala má forseti einungis sitja í embætti í eitt fjögurra ára kjörtímabil.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×