Erlent

Skotið á skrifstofur innflytjendayfirvalda í Texas

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar innflytjenda- og tollaeftirlitsins ICE. Myndin er úr safni.
Fulltrúar innflytjenda- og tollaeftirlitsins ICE. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Forsvarsmenn Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) fullyrða að pólitísk orðræða og „villandi upplýsingar“ um innflytjendastefnu Trump-stjórnarinnar hafi verið orsakir þess að skotið var á skrifstofur stofnunarinnar í San Antonio í Texas í fyrrinótt. Enginn særðist.

Nokkrum byssukúlum var skotið á skrifstofur ICE um klukkan þrjú að nóttu að staðartíma. Einnig var skotið á tvær nærliggjandi byggingar, að sögn alríkislögreglunnar FBI. Enginn hefur verið handtekinn og leitar alríkislögreglan nú að sökudólgnum eða dólgunum.

Störf ICE í tíð ríkisstjórnar Donalds Trump forseta hafa verið afar umdeild. Aðbúnaður í skýlum fyrir innflytjendur í haldi hefur verið harðlega gagnrýndur. Rétt eftir skotárásina í El Paso fyrir einni og hálfri og viku sem var sérstaklega beint að rómansk amerískum innflytjendum lét ICE til skarar skríða og handtók hundruð manna sem voru taldir dvelja ólöglega í Bandaríkjunum. Engar ráðstafanir voru gerðar vegna barna fólksins og bárust fregnir af því að skólayfirvöld hafi þurft að hafa hraðar hendur til að sjá börnum fyrir samastað eftir að foreldrar þeirra voru handteknir.

Í yfirlýsingu vegna skotárásarinnar á skrifstofurnar í San Antonio kennir ICE orðræðu gagnrýnenda stofnunarinnar um hana, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þessi truflandi almanna orðræða hylur störf mikilvægrar löggæslu og setur öryggi fulltrúa okkar í óþarfa hættu,“ sagði Daniel Bible, forstjóri ICE í San Antonio.

Christopher Combs, yfirmaður FBI í borginni, segist óttast að fleiri skotárásir sem þessi gætu verið yfirvofandi vegna andrúmsloftsins í landinu.

„Við getum ekki látið pólitíska orðræðu leiða okkur til ofbeldis þar sem alríkisstarfsmenn, saklaust fólk að vinna sína vinnu, er sett í hættu,“ segir Combs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×