Erlent

Trudeau braut siðareglur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trudeau hefur verið á hálum ís vegna ásakana um að hann hafi haft óeðlileg afskipti af meiriháttar spillingarmáli.
Trudeau hefur verið á hálum ís vegna ásakana um að hann hafi haft óeðlileg afskipti af meiriháttar spillingarmáli. Vísir/EPA
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, braut siðareglur þegar hann reyndi að hafa áhrif á dómsmálaráðherra Kanada í tengslum við rannsókn á meintu misferli SNC-Lavalin, eins stærsta verkfræði- og byggingarfyrirtæki heims.

Þetta er niðurstaða siðareglumeistara alríkisstjórnarinnar í Kanada sem hóf athugun á málinu eftir að fréttir voru sagðar af því að Trudeau hafi á ólögmætan hátt komið að því að forða verkfræðistofunni frá málaferlum. Var hann sagður hafa beðið Jody Wilson-Raybould, þáverandi dómsmálaráðherra Kanada, að grípa inn í málaferli á hendur SNC-Lavalin, og beitt hana þrýstingi í þeim efnum.

Mál verkfræðistofunnar snerist um að fyrrum yfirmenn hennar eiga að hafa gerst sekir um mútugreiðslur í viðleitni til þess að fá réttinn að verkefnum í Líbíu á stjórnartíð Muammars Gaddafi, en hann var settur af árið 2011.

Í niðurstöðu siðareglumeistarans segir að Trudeau hafi brotið þá grein siðareglna kanadísku alríkisstjórnarinnar sem meina þeim sem sitja í opinberu embætti að beita stöðu sinni á óeðlilegan hátt í þágu þriðja aðila.

„Forsætisráðherrann gerði það, bæði í eigin persónu og í gegnum háttsetta embættismenn, og beitti Wilson-Raybould þrýstingi á margvíslegan hátt,“ er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni. Engin viðurlög eru við brotum forsætisráðherrans en talið er að málið geti haft áhrif á fylgi hans og Frjálslynda flokksins í kosningunum í október.

Sjálfur segist Trudeau samþykkja niðurstöður siðareglumeistarans, þrátt fyrir að hann taki ekki undir allt það sem fram kemur í skýrslunni.


Tengdar fréttir

Leynileg upptaka þrengir enn stöðu Trudeau

Á upptökunni heyrist einn nánasti ráðgjafi Trudeau forsætisráðherra beita þáverandi dómsmálaráðherrann þrýstingi að sækja ekki stórfyrirtæki til saka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×