Innlent

Upplifunin óhugnanleg en flugþjónarnir sýndu mikla fagmennsku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn færður inn í lögreglubíl í Stavangri í morgun.
Maðurinn færður inn í lögreglubíl í Stavangri í morgun. Vísir
Júlíana Kristín Jóhannsdóttir telur að flestir farþegarnir hafi verið sofandi í flugi Wizz Air frá Búdapest til Íslands í morgun þegar íslenskur karlmaður á sjötugsaldri gerði til raun til að komast inn í flugstjórnarklefann.

Maðurinn ber við minnisleysi en hann hafi verið undir áhrifum lyfseðilsskylda lyfja. Hann hafi enga mótspyrnu veitt þegar hann var stöðvaður.

„Við vissum voðalega lítið hvað væri að gerast fyrr en við fréttum að vélin væri að fara að lenda í Stavangri,“ segir Júlíana Kristín.

Lagt var af stað frá Búdapest klukkan sjö í morgun en ákveðið að millilenda í Noregi vegna uppákomunnar.

„Þá vissum við ekkert hvað var í gangi. Þá taka bara lögregla og slökkvilið á móti okkur. Þetta var óhugnanlegt,“ segir Júlíana Kristín.

Flugstöðin í Stavangri í Noregi.WikiCommons
Fljótlega hafi kvisast út að þetta væri vegna hegðunar Íslendingsins sem mun vera á sjötugsaldri.

„Starfsfólkið tæklaði þetta vel. Það voru allir mjög rólegir,“ segir Júlíana Kristín.

Júlíana, sem er pönkbassaleikari í hljómsveitinni Dauðyflunum, var komin til landsins þegar blaðamaður náði af henni tali. Biðin í Stavangri hefði líklegast verið um fjörutíu mínútur.

„Það þurfti að leita að tösku mannsins í farþegaríminu. Allir þurftu að taka sinn handfarangur út til að bera kennsl á tösku mannsins. Hún fannst.“

Maðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsisdóm. Hann verður yfirheyrður í dag en óvíst er hvenær honum verður sleppt úr varðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×