Innlent

Gul viðvörun í gildi vegna hvassviðris við Öræfajökul

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gul viðvörun er í gildi við Öræfajökul og Vatnajökul.
Gul viðvörun er í gildi við Öræfajökul og Vatnajökul.
Aðstæður við Öræfajökul og Vatnajökul eru varasamar fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi en hvass vindstrengur er við Öræfajökul í dag og þá er spáð hvössum vind sunnan og austan undir Vatnajökli á morgun.

Norðaustan 15-20 m/s við Öræfajökul og vindhviður 24-30 m/s.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands verður norðaustan og norðan 8-15 m/s en hvassara í vindstrengjum suðaustanlands. Bjart að mestu sunnan heiða en dálítil væta annars staðar.

Talsverðri rigningu er spáð á Austurlandi seinnipartinn á morgun. Hiti 6 til 11 stig um landið norðanvert en 11 til 16 stig syðra yfir daginn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Norðan 8-15 m/s. Dálítil væta á Norður- og Austurlandi, en þurrt sunnan heiða. Fer að lægja um kvöldið og styttir upp. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast syðst.

Á mánudag:

Breytileg átt 3-8, en norðan 8-13 með austurströndinni fram eftir degi. Víða léttskýjað, en skýjað austanlands og skúrir syðst á landinu. Hiti yfir daginn frá 5 stigum á Austurlandi, upp í 15 stig um landið suðvestanvert.

Á þriðjudag:

Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna á Suður- og Vesturlandi, en þurrt og bjart fyrir norðan og austan. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Suðlæg átt og vætusamt með köflum, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×