Fótbolti

Tvö mörk Lewandowski dugðu Bayern ekki til sigurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewandowski skoraði tvö mörk í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar.
Lewandowski skoraði tvö mörk í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Bayern München hóf titilvörn sína með því að gera jafntefli við Herthu Berlin, 2-2, í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Bæjarar hafa orðið þýskir meistarar sjö ár í röð.

Robert Lewandowski kom Bayern yfir með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Serge Gnabry á 24. mínútu.

Á 36. mínútu jafnaði Vedad Ibisevic þegar skot Dodis Lukebakio fór í bakið á honum og í netið.

Tveimur mínútum síðar slapp Marko Grujic, lánsmaður frá Liverpool, inn fyrir vörn Bayern, lék á Manuel Neuer og skoraði. Tvö mörk á þremur mínútum hjá gestunum frá Berlín.

Á 60. mínútu reif Grujic Lewandowski niður í teignum og vítaspyrna var dæmd. Pólverjinn fór á punktinn og skoraði af öryggi. Lewandowski hefur orðið markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar tvö ár í röð og byrjar þetta tímabil af krafti.

Næsti leikur Bayern er gegn Schalke á útivelli á laugardaginn í næstu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.